Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Víkingur Ó. 6-4 │Blikar í úrslit eftir vítaspyrnukeppni

Árni Jóhannsson á Kópavogsvelli skrifar
Leikmenn Blika fagna í fyrra.
Leikmenn Blika fagna í fyrra. vísir/bára
Breiðablik mun spila við Stjörnuna um Mjólkurbikarinn 2018 þann 15. september næstkomandi á Laugardalsvellinum en það varð ljóst eftir að þeir lögðu Víking frá Ólafsvík í vítaspyrnukeppni eftir mikla dramatík fyrr í kvöld.

Víkingur Ó. komst yfir í fyrri hálfleik með marki frá Gonzalo Zamorano Leon á 32. mínútu en það var mjög gegn gangi leiksins. Blikar voru meira með boltann í leiknum í kvöld en varnarleikur gestanna var til fyrirmyndar en Blikar fengu ekki mörg færi í leiknum.

Á 67. mínútu jafnaði Thomas Mikkelsen metin en þá rændi hann boltanum af varnarmanni Víkings og lagði hann undir markvörð þeirra og í netið. Staðan var þá orðin 1-1 og hélst hún þannig þangað flautað var til leiksloka. Sökum þess þurfti að grípa til framlengingar en í blálok fyrri hálfleiks komust gestirnir aftur yfir. Þar var að verki Davíð K. Ólafsson sem skallaði knöttinn í eigið mark. 

Óheppnisstimpill var á markinu en Davíð setti hausinn í boltann til að bjarga markinu en ekki fór betur en að boltinn fór í háum boga yfir Gunnleif Gunnleifsson í markinu sem hafði skutlað sér til að verja fyrra skotið. 

Víkingur frá Ólafsvík spilaði varnarleikinn mjög vel í seinni hálfleik framlengingarinnar og hefðu getað innsiglað sigurinn þegar Kvame Quee komst í dauðafæri í uppbótartímanum. Hann klúðraði dauðafærinu og Blikar geystust í sókn. Boltinn barst á Brynjólf sem þrumaði boltanum í netið og setti leikinn í vítaspyrnukeppni.

Báðir markverðir vörðu sitthvora vítaspyrnuna í vítaspyrnukeppninni en það sem skildi á milli var að Ignacio Heras Anglada þrumaði sínu víti í slána áður en Damir Muminovic skoraði og sendi Breiðablik í úrslitaleikinn.

Afhverju vann Breiðablik?

Við skulum segja að allar heilladísirnar voru með Blikum í liði í kvöld. Frá því að sleppa með skrekkinn í á seinustu sekúndunum og að skora strax á eftir yfir í að gestirnir skutu víti í slá.

Hvað gekk illa?

Blikarnir voru mun meira með boltann en áætlun gestanna gekk upp og var framkvæmd fullkomlega þannig að Blikum gekk á löngum köflum leiksins að skapa sér færi. Þá var mjög óvanalegt, eins og þjálfari Breiðabliks benti á, að þeir áttu í vandræðum með að verjast föstum leikatriðum en bæði mörk Víkings komu þannig.

Hjá Víking Ó. gekk illa að halda einbeitingu verður að segjast en bæði mörk Blika komu eftir einstaklingsmistök sem skrifast á einbeitingarleysi.

Hverjir voru bestir á vellinum?

Varnarlína Víkings átti mjög góðan leik með Emil Dokara í broddi fylkingar en gerðu sig svo seka um mistök sem kostuðu þá leikinn.

Hjá Blikum voru það Gísli Eyjólfsson og Thomas Mikkelsen sem sáu um að skapa færin en skotskór Gísla hefðu mátt vera betur reimaðir á í kvöld.

Hvað gerist næst?

Það er nóg af deildarleikjum framundan hjá báðum liðum en þann 15. september mætast Breiðablik og Stjarnan í grannaslag í úrslitaleik Mjólkurbikarsins eins og áður hefur komið fram 

Ágúst Gylfason: Einhver galdur í þessu í lokin sem kom okkur í úrslitaleikinn
Þjálfari Breiðabliks átti, aldrei þessu vant, erfitt með að orða það hvernig honum leið strax eftir leik þegar ljóst var að Breiðblik mun leika til úrslita í Mjólkurbikarnum.

„Þvílíkar tilfinningar. Þetta er með algjörum ólíkindum. Ég hélt að þetta væri búið. Við rétt náðum jafna þetta sem var mjög sterkt og ótrúlegt. Víkingur Ól. var mjög sterkt, skipulagðir og áttu algjörlega skilið að komast í úrslitaleikinn en það er bara eitt lið sem fer en þvílík dramatík. Ég veit það ekki, þetta er einhver hrærigrautur í mér“, sagði hann eftir dágóða stund en var spurður síðan að tvennudraumarnir væru enn á lífi.

„Já en við erum ekkert endilega að hugsa um það núna og fögnum því vel en ég er strax farinn að hugsa um Vals leikinn á mánudaginn og þarf að kanna ástandið á leikmönnunum mínum. Þessi leikur tók vel í og eiga Víkingur Ó. heiður skilið, Ejub og hans menn voru mjög skipulagðir, þetta var vel sett upp hjá þeim en það var einhver galdur í þessu í lokin sem gerði það að verkum að við erum komnir í úrslitaleikinn 15. september“.

Ágúst var að lokum beðinn um að reyna að leggja mat á leikinn en þetta gat heldur betur dottið báðum megin í kvöld.

„Maður sá náttúrlega sá hvernig þeir lögðu þetta upp. Ætluðu að liggja til baka og ef ég hefði verið þjálfari þeirra þá hefði ég gert þetta líka svona, við vorum dálítið óskipulagðir og vildum reyna að sækja á þá en þeir vörðust vel og skoruðu tvö mörk á okkur úr föstu leikatriði sem er mjög óvanalegt en það er geggjað að vera kominn í bikarúrslit.“
Ejub Purisevic: Við áttum að fara í úrslitaleikinn
Eins ánægður og Ágúst Gylfason var með úrslit leiksins í kvöld þá var Ejub Purisevic alveg hinum megin á skalanum. Hans menn voru ca. hálfri mínútu frá því að komast í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn í sögunni en sitja eftir með sárt ennið eftir hádramatík og vítaspyrnukeppni.

„Það er lítið að segja. Mér finnst að við áttum að fara í úrslitaleikinn. Planið okkar gekk upp og mér leið mjög vel allan leikinn og ég átti aldrei von á því að fá jöfnunarmarkið á okkur. Það er mjög skrýtin tilfinning að fá á sig jöfnunarmark í restina“. 

Kvame Quee var í ótrúlegu dauðafæri í lok leiks sem hefði klárað leikinn ef betur hefði farið en í staðinn fengu Víkingarnir jöfnunarmark á sig með lokaspyrnu leiksins. Átti hann kannksi að fara út í horn og tefja leikinn?

„Hann þurfti ekkert að tefja neitt, hann spilaði boltanum upp og reyna að skora. Í báðu tilvikum sem við fáum á okkur mark þá voru það skrýtnar einstaklingsákvarðanir. Ég veit ekki hvað menn voru að spá en þeir vou að gleyma sér aðeins. Ég ætla að hrósa mínu liði, við vorum virkilega flottir og Blikarnir áttu engin svör við leik okkar. Dómarinn gaf þeim einhverjar fjórar eða fimm aukaspyrnur sem voru einu hætturnar frá þeim. Liðið mitt spilaði mjög vel og við vorum óheppnir að klára ekki leikinn með því að ná þriðja markinu“.

„Ég á eftir að horfa á þennan leik og sjá hvað hefði getað farið betur og kannski geyma það þangað til eftir tímabilið. Þá er kannski hægt að hugsa um þetta. Þetta er sárt en við tökum þessu standandi og höldum áfram. Mjög ánægður og stoltur af mínu liði“.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira