Erlent

Trump segir að Sessions ætti að stöðva Mueller

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Sessions fylgist með ræðu Trump.
Jeff Sessions fylgist með ræðu Trump. Vísir/GETTY

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallaði í dag eftir því að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Trump, stöðvaði rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknarar Dómsmálaráðuneytisins. Hann rannsakar meðal annars afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, hvort samstarf hafi verið á milli Rússa og starfsmanna framboðs Trump og hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, meðal annars með því að reka James Comey, fyrrverandi yfirmann FBI, sem var yfir Rússarannsókninni svokölluðu.

Í röð tísta sagði Trump, meðal annars, að rannsókn Mueller væri smánarblettur á Bandaríkjunum. Starf Mueller og rannsakenda hans væri að koma svörtu orði á Bandaríkin.

Jeff Sessions sagði sig frá Rússarannsókninni á sínum tíma, eftir að í ljós kom að hann hafði sagt þingmönnum ósatt um samskipti sín og Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Trump hefur ítrekað gagnrýnt Sessions fyrir þá ákvörðun. Þá hefur hann sagt að hann hefði aldrei skipað Sessions í embætti ef hann hefði vitað að hann ætlaði að segja sig frá rannsókninni.

Eitt af tístum hans í morgun er þó sérstakt þar sem hann segir með beinum hætti að Sessions ætti að stöðva Mueller, sem í sjálfu sér gæti verið séð sem hindrun réttvísinnar. Fram hefur komið að Mueller er að fara yfir yfirlýsingar forsetans á Twitter og annars staðar þar sem Trump hefur gagnrýnt Sessions og beitt hann þrýstingi.

Bæði Sessions og Comey eru vitni í rannsókn Mueller.

Nú standa yfir réttarhöld gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump, en Mueller hefur ákært hann fyrir fjölda brota. Þar á meðal svik, fjárþvætti, samsæri gegn Bandaríkjunum og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Málið kemur Rússarannsókninni að vissu leyti ekki við, þrátt fyrir fjölmörg tengsl Manafort og Rússlands, en dómari málsins hefur sakað Mueller um að ákæra Manafort til að fá hann til að veita upplýsingar um Trump.

Rick Gates, fyrrverandi samstarfsmaður Manafort, hefur starfað með Mueller. Rudy Giuliani, lögmaður Trump, hefur sagt að Trump gæti mögulega náðað Manafort, verði hann fundinn sekur.

Áðurnefndur dómari úrskurðaði þó sömuleiðis að ákærurnar væru innan verksviðs Mueller og þá sérstaklega vegna tengsla Manafort og Rússlands.

Trump tísti einnig um Manafort í dag og sagði hann Manafort hafa unnið fyrir nokkra stjórnmálaleiðtoga eins og Ronald Reagan og Bob Dole. Hann hafi einungis unnið fyrir Trump um skamma stund. 

„Af hverju sagði ríkisstjórnin mér ekki að hann væri til rannsóknar. Þessar gömlu ákærur hafa ekkert með samstarf við Rússa að gera – Gabb!“ skrifaði Trump.


Tengdar fréttir

Donald Trump og Cohen í hár saman

Michael Cohen, áður lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, mun greina Robert Mueller, sérstökum saksóknara í Rússamálinu, frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi vitað af fundi Donalds Trump yngri, Jareds Kushner og Pauls Manafort með rússneska lögfræðingnum Natalíu Veselnítskaja í Trump-turninum í júní 2016 áður en fundurinn átti sér stað

12 Rússar ákærðir vegna Mueller rannsóknarinnar

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag um að 12 rússneskir ríkisborgarar hefðu verið ákærðir grunaðir um að hafa meðal annars brotist inn á tölvukerfi demókrataflokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.