Erlent

Rítalín best við barna-ADHD

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Notað við ADHD.
Notað við ADHD. Fréttablaðið/Stefán
Heppilegast og öruggast er að nota Rítalín og önnur skyld lyf með virka efnið meþílfenídat, til að meðhöndla athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) hjá börnum. Aftur á móti er það vænlegast til árangurs hjá fullorðnum að nota lyf eins og Adderral sem innihalda virka efnið amfetamín.

Þetta er meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt var í vísindaritinu Lancet Psychiatry fyrr í vikunni. Rannsóknin var umfangsmikil og tók til gagna úr 133 tvíblindum slembirannsóknum þar sem virkni mismunandi tegunda lyfja við ADHD, þar á meðal meþílfenídats og amfetamíns, var borin saman við lyfleysu.

Rannsóknarhöfundar benda á að börnum sem fái lyf við ADHD hafi fjölgað undanfarin ár. Sú þróun hafi orðið á sama tíma og vísindamenn og almenningur hafi öðlast dýpri þekkingu á sjúkdóminum. Því sé mikilvægt að börn með greiningu fái viðeigandi lyf. Niðurstöðurnar séu mikilvægur liður í því að tryggja gæði meðferðar. Í kringum fimm prósent allra barna þjást af ADHD.

„Niðurstöður okkar verða vonandi til þess að fólk með ADHD fái viðeigandi meðferð,“ sagði Andrea Cipriani, prófessor við Oxford háskóla og einn rannsóknarhöfunda.

Aukin lyfjanotkun í tengslum við ADHD hefur oft sætt mikilli gagnrýni, sérstaklega þeirra sem telja aðrar leiðir heppilegri, eins og til dæmis hugræna athyglismeðferð eða athafnasemismeðferð. Rannsóknarhöfundar segja þetta rangt. Slík meðferð geti sannarlega hjálpað en hún slái ekki á einkenni ADHD eins og eftirtektarleysi, hvatvísi og ofvirkni. Lyfin þjóni þeim tilgangi að virkja þá líffræðilegu ferla sem stuðla að eðlilegri virkni heilans. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×