Íslenski boltinn

Gunnar: Gaman að líkja þessu við alfa-ljónið í ljónahjörð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur.
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur. vísir/daníel
Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur var afar ánægður eftir sigurinn á Víkingum í kvöld en með honum jöfnuðu Suðurnesjamenn bæði KR og FH að stigum.

„Við erum ekkert smá sáttir. Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn frábærlega, líklega einn besti hálfleikur okkar í sumar og það var því svolítið högg að fá á sig markið undir lok hálfleiksins. Seinni hálfleikur fór svo meira í það að sigla þessu heim frekar en að gefa í sem við hefðum þurft varðandi markatölu og annað. Frábært hjá okkur að landa þessu,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi eftir leikinn í dag.

Hópurinn hjá Grindavík hefur þynnst aðeins að undanförnu, Jóhann Helgi Hannesson fór aftur til Þórs á Akureyri og Jón Ingason út í nám. Þá á Marinó Axel Helgason við meiðsli að stríða og Brynjar Ásgeir Guðmundsson var ekki heldur í hóp í dag.

„Við erum búnir að missa fimm leikmenn frá því mótið hófst og einhverjir myndu væntanlega segja að hann sé veikari fyrir vikið. En þegar við vorum að spila hvað best í fyrra vorum við með ellefu heila leikmenn og bættum svo við 2.flokks peyjum. Það er flott að yngri leikmenn fá tækifærið,“ sagði Gunnar og hélt áfram.

„Mér finnst gaman að líkja þessu við alfa-ljónið í ljónahjörð. Þá er það alltaf sterkasta og stærsta ljónið sem vinnur og getur eðlað sig langmest með öðrum kvendýrum. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Ættu ljón ekki að stækka því það er alltaf stærsta ljónið sem fær mest að eðla sig?" 

"En það gerist ekki því þá þurfa þeir að borða meira og þá minnkar hjörðin aftur. Þetta snýst um að finna jafnvægið og það er það sem hópurinn þurfti akkúrat á að halda,“ sagði Gunnar sposkur á svip.

Að lokum spurði blaðamaður Gunnar út í regnbogaarmbandið sem hann var með á erminni.

„Við erum fjölþjóðlegur hópur, með sjö þjóðerni held ég, og við fögnum að sjálfsögðu fjölbreytileikanum,“ sagði Gunnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×