Íslenski boltinn

Toddi tekur Fylki í gegn: Eins og appelsínugular keilur sem bara standa þarna

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Fylkir tapaði sex stiga leik á móti Víkingi, 3-2, í Pepsi-deild karla í fótbolta og er fyrir vikið í fallsæti á meðan Víkingar fjarlægðust fallsvæðið um sinn.

Víkingar lögðu gruninn að sigrinum mikilvæga með þremur mörkum gegn engu í fyrri hálfleik, þar af tveimur mörkum á fyrstu sjö mínútum leiksins þar sem Fylkismenn voru steinsofandi.

Fyrra markið skoraði Davíð Örn Atlason eftir frábæran einleik og það síðara Bjarni Páll Linnett Runólfsson með föstu skoti úr teignum eftir að boltinn barst til hans í hornspyrnu.

„Þetta er eins og að horfa mann í svigi framhjá keilum sem að standa þarna í appelsínugulum búningum. Hann fær að labba í gegn. Það fer enginn nálægt manninum. Ég veit ekki hvað Helgi segir þegar að hann sér þetta aftur,“ sagði Þorvaldur Örlygsson um fyrra markið og ekki var hann kátari með varnarleik Fylkis í öðru markinu.

„Fylkir fékk á sig mark úr horni í fyrri leiknum á móti Víkingi og hér gerist það aftur. Hver er að dekka manninn fyrir utan? Það eru átta leikmenn Fylkis inn í markteignum en það fer enginn á móti skotinu. Það var ekki skrítið að þeir lentu 2-0 undir með svona spilamennsku,“ sagði Þorvaldur.

Helgi Valur Daníelsson, leikmaður Fylkis, átti erfiðan dag á skrifstofunni og fékk rautt spjald í leiknum en hann var sérstaklega slæmur í fyrri hálfleik.

„Honum til varnar stjórnaði hann vörninni betur í seinni hálfleik en það gekk allt á afturfótunum í fyrri hálfleik. Hann var að missa boltann, hleypa mönnum framhjá sér, gefur víti og margar hans ákvarðanir bara rangar,“ sagði Þorvaldur og Gunnar Jarl Jónsson tók undir orð hans:

„Það er hrikalegt með alla þessa reynslu að fara á rassinn í þessari stöðu (vítaspyrnunni). Hann er góður spilari með góðar sendingar og var betri í seinni hálfleik en Helgi var afskaplega klaufalegur í fyrri hálfleik,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.