Íslenski boltinn

Davíð Örn um markið sitt: Vissi ekki alveg hvað ég var að gera

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Davíð Örn í baráttu við Sigurð Egil Lárusson í leik Víkinga og Vals síðasta sumar
Davíð Örn í baráttu við Sigurð Egil Lárusson í leik Víkinga og Vals síðasta sumar vísir/andri marinó

 Davíð Örn Atlason átti góðan leik í vörn Víkings er liðið sigraði Fylki, 3-2, í hörkuleik í Egilshöllinni í kvöld í Pepsi deild karla í fótbolta.

„Þvílíkur léttir að fá þrjú stig eins og þessi síðari hálfleikur spilaðist. Léttir að fá þrjú stig í hús og tengja saman tvo sigra. Höfum ekki náð því í sumar og verið í basli með það undanfarinn ár,“ sagði Davíð en staðan var 3-0, Víkingum í vil, í hálfleik en Fylkir voru ansi nálægt því að koma til baka í restina og jafna í 3-3. En hvað kom til að Víkingur var næstum því búinn að sleppa frá sér þriggja marka forystu?

„Það er eitthvað sem við verðum að skoða en sem betur fer skoruðum við þrjú mörk í fyrri hálfleik og það dugði í dag.“

Davíð Örn skoraði fyrsta mark Víkinga í dag er hann fékk boltann á kanntinum nálægt miðju vallarins og strunsaði upp völlinn óáreittur og smellti boltanum svo í fjærhornið. Ansi myndarlegt mark og sérstaklega í ljósi þess að Davíð er fyrst og fremst varnarmaður.

„Ég vissi ekki alveg hvað ég var að gera. Ætlaði fyrst að skjóta með vinstri en svo datt boltinn á hægri fótinn minn og skaut einhvernveginn. Ég þarf að sjá þetta aftur. Ég mun skoða þetta oft þar sem ég skora ekki oft,“ sagði Davíð sem segir Víkinga ekki ætla að slaka á þrátt fyrir að vera eftir sigur kvöldsins í 6. sæti eða um miðja deild.

„Megum ekki láta það blekkja okkur. Það er stutt í liðin fyrir neðan okkur. Ef við hefðum tapað í dag værum við núna í fallsæti.“

Víkingur er í 6. sæti með 15 stig, fjórum stigum á undan Fylki sem er í fallsæti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.