Erlent

Sumir helladrengirnir án ríkisfangs og réttindalausir í Taílandi

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Drengirnir voru heimtir úr helju í beinni útsendingu fjölmiðla um allan heim. Sumir þeirra eru réttindalausir í Taílandi.
Drengirnir voru heimtir úr helju í beinni útsendingu fjölmiðla um allan heim. Sumir þeirra eru réttindalausir í Taílandi. Vísir/Getty
Komið hefur í ljós að þrír drengjanna, sem var bjargað úr helli í Taílandi á dögunum, eru án ríkisfangs. Sömu sögu er að segja af fótboltaþjálfaranum sem dvaldi með þeim í hellinum.

Taílensk stjórnvöld íhuga nú að veita þeim taílensk vegabréf en það getur tekið einhvern tíma.

Drengirnir og þjálfarinn eru frá róstursömu héraði í norðurhluta Taílands, við landamærin að Mjanmar. Upplausn og lögleysa ríkir á þeim slóðum og íbúarnir eru ekki taílenskir ríkisborgarar samkvæmt lögum.

Það þýðir að þeir hafa engin réttindi í taílenska kerfinu og eiga yfir höfði sér að vera reknir úr landi án fyrirvara.

Talsmaður taílenska innanríkisráðuneytisins segir að mál fjórmenninganna séu í skoðun. Verið sé að leita staðfestingar á því hvort þeir séu fæddir innan landamæra Taílands og hvort þeir eigi minnst eitt taílenskt foreldri. Það sé yfirleitt forsenda fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Ferlið gæti tekið langan tíma þar sem stjórnvöld virðast ætla að byrja á að leita uppi pappíra og skjöl á borð við fæðingarvottorð. Það verður hægara sagt en gert á svæði þar sem átök og hörð lífsbarátta hafa almennt forgang fram yfir skjalavörslu.

Um hálf milljón manna í Taílandi er án ríkisfangs, flestir á landamærunum við Mjanmar. Þeir sæta fordómum og mismunun þar sem margir Taílendingar álíta þá ekki hluta af þjóðinni heldur flóttamenn.

Stjórnvöld hafa hins vera skuldbundið sig til að bæta stöðu þessa hóps og veita þeim full réttindi til atvinnu og menntunar innan fárra ára.


Tengdar fréttir

Heimsbyggðin fagnar því að drengirnir hafi komist út

Fregnir af því að fótboltadrengjunum tólf og þjálfara þeirra hafi öllum verið bjargað hafa farið eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Þjóðarleiðtogar og knattspyrnulið víða um heim hafa lýst yfir ánægju sinni með það að allir séu heilir á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×