Erlent

600 metrum frá fótboltadrengjunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 10 þúsund lítrum af vatni er dælt úr hellinum á hverri klukkustund.
Um 10 þúsund lítrum af vatni er dælt úr hellinum á hverri klukkustund. Vísir/Getty
Kafarar úr tælenska sjóhernum nálgast nú svæði þar sem talið er að tólf tælenskir strákar séu fastir ásamt fótboltaþjálfara sínum. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að þeir séu nú í um 600 metra fjarlægð frá drengjunum. Lengra komast þeir þó ekki í bili því hellirinn er sagður of þröngur til að hægt sé að skríða til drengjanna.

Um 10 þúsund lítrum af vatni er dælt úr hellinum á hverri klukkustund. Engu að síður er hann ennþá á bólakafi sökum mikilla rigninga. Skyggnið í hellinum er nákvæmlega ekkert og því enginn hægðarleikur að feta sig áfram í þröngum og hættulegum hellinum. Til að mynda týndust 4 björgunarsveitarmenn í hellinum á dögunum, en komu þó heilir á húfi í leitirnar. Því gengur leit kafaranna hægt fyrir sig. Héraðsstjóri svæðisins sagði í samtali við erlenda miðla að það hafi tekið kafarateymið um 8 klukkustundir að komast yfir 600 metra.

Ekkert hefur spurst til strákanna, sem eru á aldrinum ellefu til sextán ára, síðan 23. júní síðastliðinn þegar þeir fóru að skoða hellinn ásamt 25 ára gömlum fótboltaþjálfara sínum. Hellirinn fylltist af vatni eftir gríðarlega rigningu á svæðinu en það er von björgunarmanna að drengirnir hafi fundið skjól í útskoti í hellinum.

Talið er að drengirnir geti lifað 8 daga í hellinum, komist þeir í hreint vatn. Læknar óttast að þeir kunni að veikjast heiftarlega ef drykkjarvatnið þeirra í hellinum er óhreint.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×