Erlent

Betri þjónusta á sjúkrahúsum fyrir menntaða

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Langskólagengnir sjúklingar fá meiri eftirfylgni á norskum sjúkrahúsum
Langskólagengnir sjúklingar fá meiri eftirfylgni á norskum sjúkrahúsum vísir/getty
Alvarlega veikir sjúklingar sem eru langskólagengnir fá meiri hjálp á norskum sjúkrahúsum en aðrir. Þetta sýnir rannsókn á gögnum um 100 þúsund sjúklinga, að sögn norska ríkisútvarpsins.

Jon Ivar Elstad, vísindamaður hjá Nova-stofnuninni, bar saman skólagöngu 100 þúsund sjúklinga sem létust á árunum 2009 til 2011. Eftirfylgni reyndist meiri meðal þeirra langskólagengnu í formi innlagna á sjúkrahús og rannsókna.

Mat Elstads er að þeir sem rannsakaðir voru nánar hafi ekki verið veikari en hinir. Um var að ræða sjúklinga með krabbamein og lungna- og hjartasjúkdóma.

Greinilegast var mynstrið hjá krabbameinssjúklingum. Að sögn Elstads kunna skýringarnar til dæmis að vera viðhorf lækna til mismunandi samfélagshópa, samskipti milli sjúklings og lækna, virkni sjúklingsins sjálfs eða kröfur aðstandenda um meiri eftirfylgni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×