Erlent

Kakadúi í miðaldahandriti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndin er talin sýna kakadúa frá Ástralíu eða Papúa Nýju-Gíneu
Myndin er talin sýna kakadúa frá Ástralíu eða Papúa Nýju-Gíneu BIBLIOTECA APOSTOLICA VATICANA
Teikning af áströlskum kakadúa sem fannst á dögunum í handritasafni Vatíkansins er talin vera sú elsta í Evrópu. Vísindamenn áætla að teikningin hafi verið gerð einhvern tímann á 13. öld og er hún því um 250 árum eldri en aðrar teikningar sem fundist hafa af fuglinum í álfunni.

Fjórar teikningar fundust af kakadúanum í bókum sem höfðu verið í eigu keisarans Friðriks annars. Fuglinn fannst aðeins í Suðaustur-Asíu og Eyjaálfu á 13. öld og eru teikningarnar því sagðar til marks um það að verslunarleiðir á miðöldum hafi verið víðfemari en áður hefur verið talið.

Í bókum Friðriks annars má finna myndir af þeim rúmlega 900 fuglum sem talið er að hafi mátt finna í keisarahöllinni. Við hliðina á myndina af kakadúanum stendur ritað á latínu að fuglinn hafi verið gjöf frá soldáni ajúbída. Vísindmennirnir segja að ritaðar heimildir staðfesti að Friðrik hafi fengið „hvítan páfagauk“ að gjöf en

að teikningin hafi engu að síður komið þeim skemmtilega á óvart. 

Fram til þessa var elsta mynd af kakadúa talin vera teikning ítalska málarans Andrea Mantegna, sem er frá árinu 1496.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×