Erlent

Kosningastjóri Trump fékk milljóna lán frá rússneskum ólígarka

Kjartan Kjartansson skrifar
Manafort hafði lengi verið málsvari erlendra ríkja áður en hann tók við sem kosningastjóri Trump árið 2016. Hann virðist þó ekki hafa greint frá þeim störfum eins og lög kváðu á um.
Manafort hafði lengi verið málsvari erlendra ríkja áður en hann tók við sem kosningastjóri Trump árið 2016. Hann virðist þó ekki hafa greint frá þeim störfum eins og lög kváðu á um. Vísir/EPA
Samband Pauls Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta, við rússneskan ólígarka með náin tengsl við stjórnvöld í Kreml virðast hafa verið nánari en áður hefur komið fram. Gögn sem lögð hafa verið fram í máli gegn Manafort benda til þess að hann hafi fengið tíu milljón dollara lán frá rússneska auðkýfingnum.

Upplýsingar um lánið koma fram í umsókn um leitarheimild sem leynd var létt af í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þar kemur fram að fyrirtæki í eigu Manafort og konu hans hafi fengið tíu milljóna dollar lán frá rússneskum lánveitanda, Oleg Deripaska.

Deripaska er álfursti sem er náinn Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Hann er einn þeirra rússnesku ólígarka sem bandarísk stjórnvöld byrjuðu að beita refsiaðgerðum í apríl.

Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, ákærði Manafort fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis. Manafort er einnig ákærður fyrir skattaundanskot.

Konstantin Kilimnik, rússneskur samstarfsmaður Manafort og milligöngumaður á milli hans og Deripaska, er einnig ákærður í máli Mueller. Kilimnik er sagður hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna en hann neitar því.

Samkvæmt skjölunum styrkti Deripaska einnig málafylgjustörf Manafort fyrir úkraínsk stjórnvöld. Manafort vann fyrir ríkisstjórn Viktos Janúkótvitsj áður en hann hrökklaðist frá völdum árið 2014. Árið 2016 tók Manafort við sem kosningastjóri Trump en hætti nokkrum mánuðum fyrir kosningar eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði þegið milljónir dollar frá flokki Janúkóvitsj sem var hallur undir stjórnvöld í Kreml.

Mál gegn Manafort eru rekin bæði í Washington-borg og Virginíu. Réttarhöldin í málinu í Virginíu eiga að hefjast í næsta mánuði en í september í Washington. Dómari sendi Manafort nýlega í fangelsi þar sem hann var talinn hafa brotið gegn tryggingarlausn sinni með því að reyna að hafa áhrif á vitni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×