Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Stjarnan 0-1 | Stjarnan vann toppliðið

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
vísir/anton
Stjarnan vann mikilvægan 1-0 sigur á Breiðablik í kvöld á Kópavogsvelli í 7. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Með sigrinum er Stjarnan komið upp í 4. sæti deildarinnar með 10 stig, stigi á eftir Breiðablik sem þarf líklega að sjá á eftir toppsætinu að þessari umferð lokinni.

 

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og leit fyrsta færi leiksins ekki ljós fyrren á 15. mínútu þegar að Guðmundur Steinn, einn af þremur framherjum Stjörnunnar, fór illa að ráði sínu og þrumaði boltanum langt yfir markið úr dauðafæri. 

 

Átta mínútum síðar var Viktor Margeirsson nálægt því að skora fyrsta mark leiksins, en hefði það verið í vitlaust mark. Ætlaði hann að koma hættulegri fyrirgjöf Hilmars Árna frá marki, en heppnaðist ekki betur en svo að hann sparkaði í átt að eigin marki. Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, var vel vakandi á verðinum og varði stórkostlega í horn; ein af betri markvörslum sumarsins. 

 

Staðan var því markalaus þegar að liðin gengju til búningsherbergja eftir ákaflega tíðindalítinn fyrri hálfleik, sem einkenndist af miklum barning en fjögur gul spjöld litu dagsins ljós á fyrsta hálftíma leiksins. 

 

Gestirnir úr Garðabæ hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og uppskáru mark á 58. mínútu úr víti. Geta þeir þakkað markmanni Breiðabliks, Gunnleifi Gunnleifssyni, fyrir það mark en hann gerði sig sekan um glórulaus mistök í aðdraganda marksins. Fékk hann sendingu tilbaka en í stað þess að þruma boltanum útaf reyndi hann að leika boltanum framhjá Þorsteini Má. Tókst það ekki betur en svo að Þorsteinn náði boltanum af honum og brást Gunnleifur þá við með því að henda sér niður og brjóta á honum. Var því ekkert annað í stöðunni fyrir góðan dómara leiksins, Vilhjálm Þórarinsson, en að dæma víti. Hilmar Árni steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, hans áttunda mark í sumar. 

 

Lítið gekk í sóknarleik Blika og var það ekki fyrren í blálok leiksins sem að þeim tókst að skapa einhverja hættu í teig Stjörnunnar. Hefðu þeir getað stolið stiginu á 88. mínútu leiksins en Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, kom í veg fyrir það með stórkostlegri markvörslu eftir skot Elfar Freys Helgasonar. 

 

Stuttu síðar flautaði dómari leiksins til leiksloka. Verðskuldaður og gríðarlega mikilvægur 1-0 sigur Stjörnunnar á grönnum sínum úr Kópavogi því niðurstaðan. 

 

Af hverju vann Stjarnan?

Þeir voru einfaldlega betra liðið á Kópavogsvelli í kvöld. Þá fengu þeir mark á silfurfati eftir hrikaleg mistök Gulla í marki Blika. Auk þess varði Haraldur Björnsson glæsilega líkt og kom fram að ofan, þegar allt leit út fyrir að Elfar Freyr væri að jafna metin. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Það er í raun ósanngjarnt að tiltaka einhvern ákveðinn leikmann í liði Stjörnunnar sem stóð uppúr. Þetta var sigur liðsheildarinnar og áttu í raun allir leikmenn liðsins góðan leik.

Daníel Laxdal var traustur í hjarta varnarinnar, Baldur Sigurðsson var tveggja manna maki á miðjunni og vann ótal tæklingar og skallabolta og þá var Haraldur Björnsson frábær í markinu. Kom í veg fyrir að Blikar jöfnuð metin í lokin með stórkostlegri markvörslu. 

 

Hvað gekk illa?

Spil Breiðabliks og þá sérstaklega sóknarleikur þeirra. Heimamenn sköpuðu sér vissulega nokkur fín færi undir lok leiksins en sóknarleikur þeirra í heild sinni var ekki uppá marga fiska. Ágúst Gylfason, þjálfari liðsins, stillti upp leikkerfinu 3-5-2 í kvöld en óhætt er að segja að það hafi ekki virkað sem skildi. Hann hlýtur að íhuga það sterklega að breyta aftur um leikkerfi og fara í fjögurra manna varnarlínu fyrir næsta leik, enda var allt annað að sjá til Blika í upphafi móts. 

 

Hvað gerist næst?

Næstkomandi laugardag halda Blikar suður með sjó og heimsækja spútniklið Grindavíkur, sem hefur komið flestum sparkspekingum á óvart með góðri stigasöfnun í sumar. Daginn eftir tekur Stjarnan á móti Fjölni. 

 

Rúnar Páll : Sætt að vinna Blikana

„Þetta var frábær frammistaða og loksins fengum við þrjú stig. Við erum að spila vel þessa stundina og það er gríðarlegur kraftur í okkur. Það er ansi sætt að vinna Blikana á þeirra heimavelli, það verður að viðurkennast, “sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sem var að vonum gríðarlega sáttur í leikslok. 

Rúnar taldi að vinnusemi hefði skopið sigurinn í kvöld. Það og frábær markvarsla Haralds Björnssonar í lok leiksins.

„Þvílik vinnusemi, svakaleg liðsheild og baráttu frá fyrstu mínútu til lok leiksins. Við skoruðum mark, eins og við gerum alltaf, og héldum loksins hreinu. Haraldur var með “match-winner” vörslu í lokin og tryggði þetta fyrir okkur,” sagði Rúnar.

Eftir brösuga byrjun, þar sem Stjarnan gerði þrjú jafntefli, var Rúnar hæstánægður að fá loksins þrjú stig í hús. 

„Við erum búnir að spila frábærlega síðustu fjóra leiki. Frammistaðan hefur verið frábær, það hefur ekki verið neitt yfir henni að kvarta, en það hefur bara vantað sigrana. Það kom loksins í kvöld. Ég hef ekki haft neinar áhyggjur af öllum þessum jafnteflum, við erum með frábæra liðsheild og það leggja sig allir 100 % fram,“ sagði Rúnar að lokum. 

 

Ágúst Gylfason: Við duttum niður á þeirra plan 

„Það er svekkjandi að fá ekki neitt útúr þessum leik. Við vorum samt frekar ólíkir okkur í kvöld og náðum ekki að spila okkar leik. Við duttum niður á þeirra plan, spiluðum löngum boltum og þeir eru mjög sterkir í því. Betri en við greinilega,” sagði svekktur Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabils í leikslok. 

Ágúst var spurður hvað vantaði helst í spil sinna manna í kvöld.  

„Það vantaði meira sjálfstraust og að geta haldið boltanum betur. Við förum í langar spyrnur og töpum of mörgum návígjum. Það er það sem skilur liðin að,” sagði Ágúst. 

Blikar byrjuðu mótið með fjögurra manna varnarlínu. Í síðustu tveim leikjum hefur liðið hins vegar spilað með þrjá miðverði, við misgóðan árangur. Ágúst var fámáll þegar hann var spurður hvort hann hafi íhugað að breyta aftur um leikkerfi?

„Það gekk vel í síðasta leik en gekk ekki jafn vel í kvöld. Við hugsum málið og sjáum hvað verður í næsta leik,” sagði Ágúst. Ekki meira um það að segja.  

 

Haraldur Björnsson

Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, var að vonum hæstánægður í leikslok. Ekki nóg með það að Stjarnan hafi unnið mikilvægan sigur á grönnum sínum, þá hélt hann hreinu. Eitthvað sem Stjörnunni hefur gengið illa með að takast í sumar.

„Ég er mjög sáttur. Sérstaklega af því að þetta var fyrsti 1-0 sigurinn. Við erum búnir að vera að fá á okkur óþarfa mörk í lok leikjanna, þannig að það var gott að halda hreinu í kvöld, eiginlega fáranlega gott,” sagði Haraldur.

Haraldur var hógvær þegar hann var spurður út í stórkostlega markvörslu sína í lok leiksins, sem tryggði sigur Stjörnunnar. 

„Það komst einn í gegn og lítið um það að segja annað en að ég náði að bregðast við og stýra boltanum útaf en ekki aftur út í teig. Þetta var bara ágætt.”

Haraldur sagði að það lægi í augum uppi að Stjarnan stefni alltaf á titilinn. 

„Stjarnan stefnir alltaf á titilinn, en það gera Blikarnir líka og fleiri lið. Við komum okkur í efri hlutann með þessum þrem stigum. Við vissum það að það væri gríðarlega mikilvægt að missa ekki Blikana sjö stigum fram úr okkur og vera skildir eftir. Við stefnum bara uppá við. Það er Fjölnir næst og við ætlum að vinna þann leik." 

Haraldur sagði að liðið muni halda hreinu oftar í næstu leikjum. Það segi sig sjálft að hann fari aldrei með það hugarfar í leiki að fá á sig mark eða mörk.

„Það er alltaf stefnan að halda hreinu. Það fer enginn inn í leik til þess að fá á sig helling af mörkum. Ég geri það allavega ekki, ég hugsa ekki að í dag ætli ég að fá á mig þrjú mörk, sagði Haraldur að lokum og hló. 

 

Gunnleifur Gunnleifsson: Það þýðir ekkert að grenja yfir þessu

Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok. Tók hann tapið á sínar herðar, en hann gerði óvanaleg mistök í síðari hálfleik þegar hann braut klaufalega á Þorsteini Má eftir að hafa misst boltann frá sér þegar hann reyndi að leika á hann.

“Ég tek þetta auðvitað á mig. Ég gerði mistök sem kostuðu mark. Stjarnan er með gott lið og voru búnir að spila vel en það er algjör óþarfi að gefa þeim mark.”

Gulli var spurður hvað gerðist í aðdraganda vítaspyrnudómsins.

„Ég var of seinn að losa mig við boltann. Maður verður að læra af þessu, svona er þetta bara. Mistökin gerast. Við töpuðum fyrir góðu liði og áttum ekki okkar besta dag. Svo er bara næsti leikur. Það þýðir ekkert að grenja yfir þessu, “sagði Gunnleifur að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira