Íslenski boltinn

Þriðja skiptið sem Kristján sendir yngsta leikmann allra tíma inn á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV og fyrrum þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV og fyrrum þjálfari Keflavíkur. Vísir/Daníel
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, sendi fjórtán ára strák inná í Pepsi-deild karla í gær og hjálpaði drengnum með því að setja nýtt met. Þetta var aftur á móti ekki í fyrsta sinn sem Kristján sér til þess að þetta ágæta met fellur.

Eyjastrákurinn Eyþór Orri Ómarsson hjá ÍBV var aðeins 14 ára, 10 mánaða og 26 daga gamall þegar hann kom inn á móti KR á Hásteinsvellinum í gærkvöldi. ÍBV vann þá 2-0 sigur á Vesturbæjarliðinu. Eyþór er nú yngsti leikmaður efstu deildar karla frá upphafi.

Eyþór Orri bætti þarna met Hilmars Andrew McShane frá árinu 2014 en Hilmar var 15 ára og 56 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir tæpum fjórum árum síðan. Þjálfari Keflavíkurliðsins í þessum leik var einmitt Kristján Guðmundsson.

Hilmar sett sitt met í 2-0 sigri Keflavíkur á Víkingi en hann kom inná völlinn á 84. mínútu leiksins. Eyþór Orri kom inná í uppbótartíma í gær.

Kristján Guðmundsson átti einnig gamla metið sem Hilmar sló haustið 2014. Sjö árum fyrr hafði Kristján nefnilega sent Sigurberg Elísson inná í leik Keflavíkur og Fylkis.

Sigurbergur var þá aðeins 15 ára og 105 daga gamall og bætti um leið þrettán ára met KR-ingsins Árna Inga Pjeturssonar frá 1994. Árni Ingi var 44 dögum eldri en Sigurbergur.

Þessir þrír leikmenn Kristjáns, Eyþór Orri, Hilmar og Sigurbergur, sitja nú í þremur efstu sætunum á listanum yfir yngstu leikmenn allra tíma í efstu deild karla í knattspyrnu á Íslandi. 



Yngstu leikmenn allra tíma í efstu deild karla:

14 ára og 330 daga

Eyþór Orri Ómarsson ÍBV á móti KR 2018

Þjálfari: Kristján Guðmundsson

15 ára og 56 daga

Hilmar Andrew McShane, Keflavík á móti Víkingi 2014

Þjálfari: Kristján Guðmundsson

15 ára og 105 daga

Sigurbergur Elísson Keflavík á móti Fylki 2007

Þjálfari: Kristján Guðmundsson

15 ára og 109 daga

Sævar Atli Magnússon, Leikni á móti Keflavík 2015

Þjálfarar: Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónsson

15 ára og 141 dags

Bjartur Bjarni Barkarson, Víkingi Ó. á móti Víkingi R. 2017

Þjálfari: Ejub Purisevic

15 ára og 149 daga

Árni Ingi Pjetursson, KR á móti Val 1994

Þjálfari: Guðjón Þórðarson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×