Erlent

Fagna tólf ára samningi við Grænlendinga

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Grænlendingar draga verulega úr laxveiðum í sjó.
Grænlendingar draga verulega úr laxveiðum í sjó. Vísir/Afp
The Atlantic Salmon Federation (ASF) og Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF, North Atlantic Salmon Fund) hafa náð samningum við sjómenn á Grænlandi og í Færeyjum.

Samkvæmt tilkynningu mun þessi samningar „forða þúsundum fullorðinna Atlantshafslaxa frá úthafsveiðum í net og þannig auka líkurnar á að þeir nái að snúa aftur til hrygningar á æskustöðvum sínum“. Nýi grænlenski laxverndarsamningurinn sé til tólf ára. Skrifað hafi verið undir samninginn eftir liðlega heils árs viðræður. Til að bæta grænlenskum sjómönnum tekjutap munu ASF og NASF styrkja aðra atvinnuþróun, rannsóknir og menntun frumkvöðla sem beita sér fyrir verndun vistkerfa hafsins. Veiðimenn á Grænlandi munu þó geta veitt allt að tuttugu tonnum af laxi á ári til eigin neyslu og sölu í heimabyggð.

„Með því að tryggja þessa samninga nú hefst nýtt tímabil laxaverndar í Norður-Atlantshafi og á alþjóðavísu, sem sýnir að við erum staðráðin í að endurreisa þessa villtu laxa­stofna í sitt sögulega hámark,“ er haft eftir Friðleifi E. Guðmundssyni, formanni NASF á Íslandi.

„Áhrifamesta leiðin til að tryggja að sem flestir hrygningarlaxar nái að snúa aftur til ánna sinna í Norður-Ameríku og Evrópu er að draga verulega úr úthafsveiðum á villtum Atlantshafslaxi á hans helstu fæðuslóð,“ er haft eftir forseta ASF, Bill Taylor.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.