Erlent

Segir Rússa á bakvið blaðamannamorðið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Arkady Babchenko hafði verið gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld í skrifum sínum.
Arkady Babchenko hafði verið gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld í skrifum sínum. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Úkraínu segir að rússnesk stjórnvöld hafi fyrirskipað morðið á rússneska blaðamanninum Arkady Babchenko. Hann fannst í blóði sínu fyrir utan heimili sitt í Kænugarði í gær.

Lögreglan segir hann hafa verið skotinn margsinnis í bakið. Talið er að morðingi hans hafi beðið í stigaganginum í húsi hans og skotið Babchenko þegar hann var á leið út í búð.

Volodymyr Groysman, forsætisráðherra Úkraínu, segist sannfærður um að „rússneska harðstjórnarvélin“ hafi ekki getað fyrirgefið blaðamanninum, sem hafði verið gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld. Þau hafa krafist rannsóknar á morði Babchenko en segja hins vegar að stjórnvöld í Kænugarði standi á bakvið það. „Blóðugir glæpir“ úkraínskra stjórnvalda væru orðnir daglegt brauð.

Babchenko hafði þjónað í her Rússlands og varð seinna einn af fremstu stríðsblaðamönnum Rússlands. Á undanförnum árum hafði hann verið mjög gagnrýninn á aðgerðir Rússlands í Úkraínu og Sýrlandi. Rússneski embættismenn höfðu fordæmt hann fyrir ummæli sín um loftárásir í Sýrlandi og árásir Rússa í garð Úkraínu.

Samband Úkraínu og Rússlands er enn eldfimt eftir innlimun Krímskagans árið 2014 og veru rússneskra aðskilnaðarhópa í Austur-Úkraínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×