Erlent

Fjórði maðurinn á tunglinu látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Alan Bean stýrði lendingarferjunni í Apollo 12-leiðangrinum.
Alan Bean stýrði lendingarferjunni í Apollo 12-leiðangrinum. Vísir/AFP
Bandaríski geimfarinn Alan Bean sem var fjórði maðurinn til að stíga fæti á tunglið er látinn, 86 ára að aldri. Bean fór í tvær geimferðir um ævina en snéri sér að listmálun sem var innblásin af geimnum eftir að hann settist í helgan stein.

Að sögn fjölskyldu Bean lést hann á sjúkrahúsi í Houston í Texas eftir skammvinn veikindi.

Bean var tilraunaflugmaður fyrir bandaríska flugherinn þegar hann var valinn í hóp geimfara geimvísindastofnunarinnar NASA árið 1963. Hann var flugmaður lendingarferju Apollo 12-leiðangursins í nóvember árið 1969.

„Við vissum hversu erfitt þetta yrði. Við vissum hversu margir hlutir þyrftu að ganga eftir. Þetta er eins og að fara út í miðja Saharaeyðimörkina, leggja bílnum og tjalda í norra daga og vona svo að þegar þú setur hann í gang þá virki rafhlaðan því ef hún gerir það ekki þá ertu í djúpum,“ sagði Brean eitt sinn um tunglferð sína, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Brean í geimbúningi sínum í nóvember árið 1969.Vísir/AFP
Árið 1973 fór Bean fyrir mönnuðum leiðangri í Skylab, fyrstu geimstöð Bandaríkjanna. Hann hætti sem geimfari árið 1981 og helgaði sig þá listinni.

Fjórir geimfarar voru í Apollo 11 og 12, fyrstu ferðunum til yfirborðs tunglsins. Fyrstir voru þeir Neil Armstrong og Buzz Aldrin í júlí árið 1969. Félagi Bean úr Apollo 12, Charles Conrad, var þriðji maðurinn á tunglinu.

Af þeim fjórum er nú aðeins Aldrin enn á lífi en hann er 88 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×