Íslenski boltinn

„Markið sem getur breytt Íslandsmótinu fyrir Val“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gummi Ben og Gunnar Jarl fóru svo langt að segja það í útsendingu Stöðvar 2 Sport í gærkvöldi að Ólafur Karl Finsen hafi bjargað Íslandsmótinu fyrir Valsmenn þrátt fyrir að hafa ekki fengið nema nokkrar mínútur í sigrinum á toppliði Blika.

Ólafur Karl Finsen fékk í gærkvöldi sínar fyrstu mínútur í Pepsi-deildinni í sumar og nafni hans Jóhannesson, þjálfari Vals, sér örugglega ekki eftir að hafa sett strákinn inn á völlinn á úrslitastundu. Markið sem strákurinn skoraði breytti miklu fyrir Íslandsmeistaranna.

Guðmundur Benediktsson og Gunnar Jarl Jónsson lýstu leik Vals og Breiðabliks í Pepsi-deild karla á Stöð 2 Sport í gærkvöldi þar sem Íslandsmeistarar Vals komu til baka og tryggðu sér sinn fyrsta sigur síðan í fyrstu umferðinni í apríllok.

Ólafur Karl Finsen kom inná völlinn á 86. mínútu og tryggði Valsliðinu síðan öll þrjú stigin á 88. mínútu. Þetta var sjötta umferð sumarsins en fyrstu mínútur Garðbæingsins í Pepsi-deildinni 2018.

Gummi Ben og Gunnar Jarl voru sammála um að með þessu marki hafi Ólafur Karl farið langt með að bjarga Íslandsmótinu 2018 fyrir ríkjandi Íslandsmeistara en lærisveinar Ólafs Jóhannessonar voru fyrir leikinn búnir að spila fjóra leiki í röð án sigurs.

„Þetta getur verið markið sem breytir þessu tímabili fyrir Val,“ sagði Gunnar Jarl Jónsson í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum.

„Risa, risa mark sem Ólafur Karl Finsen er að gera fyrir Valsmenn sem höfðu ekki unnið síðan í fyrstu umferð,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

„Pældu samt í innkomunni Guðmundur. Hann var aðeins búinn að spila í þrjár mínútur og hafði setið á bekknum í fyrstu fimm leikjunum. Kemur svo inn og skorar sigurmarkið í algjörum „must win“ fyrir Val,“ sagði Gunnar Jarl.

„Þetta var ekki bara sigurmarkið í þessum leik heldur getur þetta verið markið sem kveikir á Íslandsmeisturunum,“ sagði Guðmundur.

„Þetta er bara markið sem getur breytt Íslandsmótinu fyrir Val,“ sagði Gunnar Jarl. Það má sjá sigurmark Ólafs Karls í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×