Erlent

Mannskæðasta skotárás í 22 ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Osmington er á vesturströnd Ástralíu, sunnan við Perth.
Osmington er á vesturströnd Ástralíu, sunnan við Perth. Google maps
Sjö einstaklingar fundust látnir á sveitabæ í vesturhluta Ástralíu í gærkvöld. Fjórir þeirra voru á barnsaldri. Líkin fundust skammt frá bænum Osmington sem er um 280 kílómetra suður af borginni Perth á vesturströnd landsins.

Áströlsk yfirvöld hafa ekki viljað gefa upp hvernig fólkið lést en gátu þó staðfest að tvö skotvopn fundust á vettvangi. Þannig er ekki útilokað að byssumaðurinn hafi svipt sig lífi eftir að hafa skotið hina sex til bana. 

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort einstaklingarnir hafi tengst fjölskylduböndum.

„Lík tveggja fullorðinna einstaklinga fundust utandyra og fimm lík fundust inni í byggingu í dreifbýli,“ er haft eftir lögreglustjóranum Chris Dawson á vef breska ríkisútvarpinu. Hann bætti við að svo virðist sem einhver skotsár hafi fundist á líkunum en treysti sér ekki til að ræða það nánar. Málið sé enn til rannsóknar og nú sé unnið í því að hafa samband við ættingja hinna látnu.

Ef þetta reynist hafa verið skotárás er um að ræða mannskæðustu árás sem framin hefur verið í Ástralíu frá því að 35 voru drepnir í Tasmaníu árið 1996. Árásin varð til þess að Ástralar tóku skotvopnalöggjöfina sína til gagngerrar endurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×