Erlent

Trump dregur Banda­ríkin út úr kjarn­orku­samningi stór­veldanna

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína nú í dag.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína nú í dag. Vísir/AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti nú rétt í þessu að hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningnum við Írani. Ákvörðun Trump er í andstöðu við vilja helstu bandamanna Bandaríkjanna. Forsetinn hefur lengi hatast við samkomulagið sem hann hefur lýst sem „geðveiku“. Þá er ákvörðunin talin líkleg til að reyna enn á stirð samskipti við Kínverja og Rússa.

Næsta laugardag rennur út frestur Bandaríkjanna til að nema úr gildi viðskiptaþvinganir gegn Íran. Trump hefur sagt að það muni hann ekki gera að óbreyttu og gera þurfi ýmsar lagfæringar á samkomulaginu áður.

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Trump sagði í ræðu sinni í dag að samningurinn sem gerður var 2015 hafi verið „hræðilegur og einhliða.“

Bandaríkjastjórn er nú sögð undirbúa að leggja refsiaðgerðirnar sem hún féll frá með samkomulaginu aftur á og bæta nýjum við, samkvæmt heimildarmanni bandaríska dagblaðsins.



Evrópuþjóðirnar hafa heitið því að halda sig við samkomulagið og er talið að ákvörðun Trump nú muni einangra Bandaríkjastjórn á alþjóðavettvangi og setja samskiptin við þessar helstu bandalagsþjóðir í uppnám.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×