Erlent

Trúir því að sér verði fyrirgefið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Piers Morgan heimsótti Weinstein á meðferðarstofnun þar sem hann sækir sér meðferð við kynlífsfíkn.
Piers Morgan heimsótti Weinstein á meðferðarstofnun þar sem hann sækir sér meðferð við kynlífsfíkn. Vísir/samsettmynd/AFP

Harvey Weinstein, kvikmyndaframleiðandi, sem sakaður er um kynferðisofbeldi og áreitni í garð á áttunda tug kvenna, telur að sér verði á endanum fyrirgefið. Þetta hefur sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan eftir Weinstein en hann heimsótti kvikmyndaframleiðandann í meðferðarstofnun í Arizona.

Weinstein er 66 ára gamall. Í Lundúnum, New York og Los Angeles er lögregla að rannsaka ásakanir á hendur honum. Ásakanirnar eru allt frá áreitni að nauðgunum og spanna rúman áratug. Hann neitar því staðfastlega að hafa nauðgað konum.

Þessa dagana er Weinstein í meðferð við kynlífsfíkn. Morgan og Weinstein ræddust við í rúman klukkutíma á meðferðarstofnuninni. Hann segist telja að á endanum muni Hollywood fyrirgefa sér. „Hann er að berjast,“ segir Morgan um Weinstein.

„Ég get ekki sagt að ég sé í eins miklu áfalli yfir þessu og annað fólk í Hollywood. Sjáðu til, svona hefur kerfið verið frá því Hollywood varð til,“ hefur Sky News eftir Morgan. Hollywood hafi ávallt verið „siðlaust lastabæli“.

„Hugmyndin um að Harvey Weinstein sé eina illmennið gengur bara ekki upp, biddu fyrir þér, sjáðu bara Mel Gibson: Harvey trúir því að sér verði fyrirgefið,“ segir Morgan en Weinstein er langt því frá sá eini í skemmtanageiranum sem hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi.

Frá því að fréttir tóku að spyrjast út um kynferðisglæpi Weinstein hefur fjöldi kvenna stigið fram og greint frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi og þvingunum í störfum sínum í Hollywood. Konur í öðrum starfsgreinum, víða um heim, hafa síðan þá fundið styrk í frásögnum sviðslistakvenna og einnig stigið fram undir myllumerkinu #metoo.


Tengdar fréttir

Framleiðandi sakar Harvey Weinstein um líkamsárás

Svo ósáttur var Weinstein við að útgáfa af kvikmynd um Marilyn Monroe sem hann vildi breyta fengi góðar viðtökur að hann hélt meðframleiðanda sínum föstum og hótaði honum öllu illu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×