Erlent

Þúsundir Ungverja mótmæltu Orban-stjórninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendurnir sökuðu Orban meðal annars um að stela kosningunum um liðna helgi.
Mótmælendurnir sökuðu Orban meðal annars um að stela kosningunum um liðna helgi. Vísir/AFP

Tugir þúsunda manna tóku þátt í mótmælum gegn ríkisstjórn Viktors Orban forsætisráðherra í Búdapest í gær. Mótmælin beindust meðal annars að ósanngjörnu kosningakerfi, spillingu og misbeitingu valds í stjórnartíð Orban.

Fidesz-flokkur Orban hélt velli í kosningunum í Ungverjalandi um síðustu helgi. Flokkurinn fékk tvö af hverjum þremur þingsætum þrátt fyrir að hafa aðeins hlotið helming atkvæða á landsvísu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Það var meðal annars gegn þessu sem mótmælin voru haldin en yfirskrift þeirra var „Við erum meirihlutinn“. Fréttaritari BBC í Búdapest segir að um 100.000 manns hafi tekið þátt í þeim. Það er svipaður fjöldi og tók þátt í göngu til stuðnings Orban í síðasta mánuði.

Mótmælendur hafa krafist endurtalningar á öllum atkvæðum, breytingum á kosningalögum, sjálfstæðra fjölmiðla og betri samvinnu á mili stjórnarandstöðuflokka.

Orban hefur verið sakaður um að fikra sig sífellt lengra í átt að valdboðsstjórnarfari. Helstu stefnumál flokks hans er andúð á Evrópusambandinu og flóttamönnum.

Óháðir fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja í Ungverjalandi. Annað af tveimur dagblöðum landsins sem er ekki hliðhollt ríkisstjórninnni lokaði í vikunni vegna fjárhagsvandræða.


Tengdar fréttir

Orbán áfram við völd

Fidesz-flokkur forsætisráðherra Ungverjalands fór með sigur af hólmi í þingkosningunum í Ungverjalandi sem haldnar voru í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.