Erlent

Með tvöfalt meira fylgi en næsti flokkur á eftir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Viktor Orbán er vinsæll í Ungverjalandi. Flokkur hans, Fidesz, mælist með langmest fylgi.
Viktor Orbán er vinsæll í Ungverjalandi. Flokkur hans, Fidesz, mælist með langmest fylgi. Nordicphotos/AFP
Ungverjar ganga að kjörborðinu á morgun og kjósa nýtt þing. Verða það áttundu kosningarnar þar í landi frá því valdatíð kommúnistaleiðtogans János Kádár leið undir lok og jafnframt þær áttundu þar sem Viktor Orbán forsætisráðherra leiðir flokk sinn, Fidesz. Ef marka má skoðanakannanir stefnir í að Fidesz fái nú flesta menn kjörna í fimmta sinn.

Staða Fidesz er sterk. Flokkurinn býður nú fram með Kristilegum demókrötum eftir að hafa verið með þeim í ríkisstjórn á kjörtímabilinu. Framboðið mælist með 45 prósenta fylgi í nýrri könnun Pub­l­icus og er því með meira en tvöfalt fylgi næststærsta flokksins, Jobbik, sem mælist í 20 prósentum.

Kosningabarátta Fidesz hefur að miklu leyti snúist um útlendinga. Þá einna helst flóttafólk. Rímar það vel við verk Orbáns á forsætisráðherrastóli enda hefur flokkurinn endurtekið sett sig upp á móti öðrum ríkjum Evrópusambandsins þegar kemur að móttöku flóttafólks.

Í stefnuræðu Orbáns í febrúar fólst kjarninn í málstað Fidesz. Varaði hann við því að óveðursský hrönnuðust nú upp yfir Evrópu. Einungis Fidesz gæti varið álfuna fyrir íslams­væðingu. „Við teljum að kristnin sé síðasta von Evrópu. Ef hundruðum milljóna ungmenna er leyft að flytja hingað norður á bóginn mun þrýstingurinn á Evrópu margfaldast. Ef þessi þróun heldur áfram munu múslimar vera í meirihluta í stórborgum Evrópu.“

Sterk staða Orbáns þykir áhyggjuefni fyrir valdamenn í vestri, að því er skýrandi Washington Post hélt fram á dögunum. Sagði skýrandinn Orbán lýðskrumara, harðasta andstæðing flóttamanna, meistara hræðsluáróðurs og alvarlegri ógn við Evrópusambandið en útganga Bretlands. Undir hans stjórn hafi heilsu lýðræðisins í Ungverjalandi hrakað, þótt lýðræðið þar sé þó enn líkara því sem þekkist í vestri en til dæmis í Rússlandi.

Afar líklegt er að Fidesz og Kristilegir demókratar haldi meirihluta sínum á þinginu. Þá sérstaklega í ljósi stjórnarskrárbreytinga og breytinga á kosningalögunum sem Orbán-stjórnin gerði snemma á áratugnum og hafa reynst flokknum vel og skilað fleiri þingmönnum en hann fengi ef einungis væri horft til fjölda atkvæða.

Fleiri eru þó í framboði. Gábor Vona leiðir Jobbik og er spáð 20 prósenta fylgi. Flokkurinn hefur fjarlægst öfgaþjóðernishyggjuna sem einkenndi hann áður og leitað inn á miðjuna í ljósi sívaxandi þjóðernishyggju innan Fidesz.

Þá býður Sósíalistaflokkur Kádárs fram með Gergely Karácsony í brúnni og í slagtogi við smáflokkinn Samræður fyrir Ungverjaland. Mælist það framboð með um nítján prósenta fylgi. Eina konan sem leiðir flokk sem líklegt er að komist á þing er Bernadett Szél. Hún leiðir frjálslynda græningjaflokkinn Öðruvísi stjórnmál og mælist framboðið með 7 prósenta fylgi.




Tengdar fréttir

Ungverjar ákveða kjördag

Kannanir benda til að hinn umdeildi Viktor Orban forsætisráðherra muni bera sigur úr býtum og sitja áfram þriðja kjörtímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×