Erlent

„Þau segja að það sé gat og einhver hafi farið út“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nauðlenda þurfti vélinni í Fíladelfíu þegar þotuhreyfillinn sprakk.
Nauðlenda þurfti vélinni í Fíladelfíu þegar þotuhreyfillinn sprakk. Vísir/epa
Kona, sem sogaðist næstum því út um gat á farþegaþotu er hreyfill vélarinnar sprakk í gær, er látin. Áður hafði verið staðfest að einn lést í slysinu en ekki fengist upplýsingar um hvort sá hefði verið umræddur farþegi er sogaðist út um gatið.

Konan sem lést hét Jennifer Riordan og starfaði sem varaforstjóri hjá fjármálafyrirtækinu Wells Fargo í borginni Albuquerque í Nýju Mexíkó, að því er fram kemur á vef Philadelphia Inquirer. Hún átti tvö börn.

Flugvélin, sem var á vegum bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines, var á leið frá New York til Dallas en nauðlenda þurfti vélinni í Fíladelfíu þegar þotuhreyfillinn sprakk. Við það kom gat á vélina og Riordan sogaðist nær út um það. Farþegar vélarinnar héldu henni þó niðri og náðu að toga hana aftur inn.

Starfsmaður öryggisnefndar flugfélagsins staðfesti í gær að einn hefði látist í slysinu en vildi ekki greina frá því hvort sá hefði verið umræddur farþegi, Riordan, sem sogaðist út um gatið.

Jennifer Riordan.Mynd/United Way of Central New Mexico

„Það vantar hluta flugvélarinnar“

Upptaka af neyðarsímtali úr flugvélinni var birt í gær en í því heyrist flugstjóri vélarinnar, Tammie Jo Shults, lýsa yfir neyðarástandi við starfsmann flugumferðarstjórnunar. BBC birti upptökuna á vef sínum en hlusta má á hana neðst í fréttinni.

„Það vantar hluta flugvélarinnar svo við þurfum að hægja örlítið á okkur,“ segir Shults.

Þá er hún spurð hvort kviknað sé í flugvélinni en hún segir svo ekki vera. „Þau segja að það sé gat og að einhver hafi farið út.“

Þá var haft eftir slökkviliði í Fíladelfíu að sjö hefðu hlotið minniháttar meiðsl í slysinu og fengið aðhlynningu á vettvangi. Við fyrstu rannsókn á tildrögum slyssins kom auk þess fram að blað virtist vanta í þotuheyfilinn sem hafi að öllum líkindum brotnað af, með áðurnefndum afleiðingum.

Southwest Airlines sagði í yfirlýsingu að forsvarsmenn væru „niðurbrotnir“ vegna slyssins og veittu öllum hlutaðeigandi samúð sína.


Tengdar fréttir

Einn lést þegar þotuhreyfill sprakk

Fréttir hafa verið um að kona hafi næstum því sogast út úr vélinni, en ekki liggur fyrir hvort að hún sé farþeginn sem lét lífið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.