Erlent

Tesla segir sjálfstýribúnað gera heiminn öruggari þrátt fyrir banaslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Ætlast er til þess að ökumenn Tesla-bíla séu með hendur á stýri jafnvel þó að sjálfstýringin sé í gangi.
Ætlast er til þess að ökumenn Tesla-bíla séu með hendur á stýri jafnvel þó að sjálfstýringin sé í gangi. Vísir/AFP
Forsvarsmenn rafbílaframleiðandans Tesla fullyrða að sjálfstýribúnaður í bílum fyrirtækisins geri heiminn „tvímælalaust öruggari“. Tesla-jepplingur sem ók á vegartálma með þeim afleiðingum að ökumaðurinn lést fyrir rúmri viku var á sjálfstýringu þegar slysið átti sér stað.

Tveggja barna faðir á fertugsaldri sem starfaði sem verkfræðingur hjá tæknirisanum Apple lést í slysinu í Kaliforníu í Bandaríkjunum 23. mars. Fjölskylda hans segir að hann hafi sagt starfsmönnum Tesla-bílaumboðs að bíllinn tæki alltaf sveigju að steinsteypuöryggistálmi sem hann rakst á endanum á, að því er segir í frétt Washington Post.

Tesla segist harma dauða ökumannsins en að nokkrir þættir hafi leitt til slyssins. Þannig hafi öryggistálmi orðið fyrir höggi í öðrum árekstri og því hafi hann ekki dreift högginu sem skyldi þegar Teslan rakst á hann.

Ökumaðurinn sjálfur hafi einnig borið nokkra sök. Þannig virðist hann ekki hafa haft augun með akstrinum þrátt fyrir að ökumenn Tesla-bíla eigi alltaf að hafa hendur á stýri jafnvel þó að sjálfstýring sé í gangi.

„Ökumaðurinn hafði fengið nokkrar sjón- og eina hljóðviðvörun um að taka við stýrinu fyrr í ökuferðinni og hendur bílsstjórans greindust ekki á stýrinu í sex sekúndur fyrir áreksturinn,“ segir í yfirlýsingu Tesla.

Tálminn hafi blasað við 150 metrum fyrir framan bílinn og í um það bil fimm sekúndur áður en hann skall á honum.

Ekki hægt að koma í veg fyrir öll slys

Fyrirtækið stendur með sjálfstýringu sinni og segir hana fækka árekstrum um allt að 40%. Ökumaður bíls með sjálfstýrihugbúnaðr sé 3,7 sinnum ólíklegri til þess að lenda í banaslysi en aðrir.

„Tesla-sjálfstýring kemur ekki í veg fyrir öll slys, slík viðmið væru ómöguleg, en hún gerir þau mun ólíklegri. Hún gerir heiminn tvímælalaust öruggari fyrir farþega bíla, gangandi vegfarendur og hjólreiðarfólk,“ segir fyrirtækið.        


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×