Erlent

Kim Jong-un djúpt snortinn yfir suður-kóreskum söngatriðum

Sylvía Hall skrifar
Kim Jong-un og Do Jong-hwan, mennta- og menningarmálaráðherra Suður-Kóreu, fylgdust með tónleikunum.
Kim Jong-un og Do Jong-hwan, mennta- og menningarmálaráðherra Suður-Kóreu, fylgdust með tónleikunum. Vísir/AFP
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, var í áhorfendasalnum þegar söngvarar frá Suður-Kóreu stigu á svið í Pyongyang. Þetta er í fyrsta skipti sem leiðtogi norðursins mætir á viðburð sem haldinn er af suður-kóreskum listamönnum samkvæmt fréttamiðlum í Suður-Kóreu.

Leiðtoginn virtist skemmta sér vel á tónleikunum, sem bera nafnið „Vor í lofti“ [e. Spring is Coming], og hitti hann söngvarana eftir sýninguna. Þar sagðist hann vera djúpt snortinn yfir frammistöðu söngvaranna og hún hafi aukið skilning hans á menningu suðursins.

Þetta þykir óvenjulegt í ljósi þess að yfirvöld í Norður-Kóreu hafa reynt eftir bestu getu að koma í veg fyrir menningarleg áhrif Suður-Kóreu.

Togstreitan milli Norður- og Suður-Kóreu hefur farið minnkandi síðustu mánuði og hefur Kim Jong-un meðal annars samþykkt að funda með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu 27. apríl. Þetta yrði í þriðja skiptið sem leiðtogar ríkjanna hittast, en fyrri leiðtogafundir voru árin 2000 og 2007. 

Jong-un fundaði með Xi Jinping, forseta Kína, í leynilegri heimsókn í síðustu viku og til stendur að hann fundi með Donald Trump, Bandaríkjaforseta.


Tengdar fréttir

Norður-Kórea vill ekkert Gangnam Style

Fjölmargar suður-kóreskar heimildir herma að stjórnvöld þar í landi reyni nú að fá hinn ofurvinsæla söngvara Psy til að koma fram á sögulegum tónleikum í Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×