Enski boltinn

Eiður Smári borgaði úr eigin vasa til að losna frá Stoke

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári átti ekki sjö dagana sæla hjá Stoke.
Eiður Smári átti ekki sjö dagana sæla hjá Stoke. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, sér mikið eftir þeirri ákvörðun sinni að ganga í raðir Stoke í ensku úrvalsdeildinni árið 2010.

Þegar að Eiður var laus allra mála frá Monaco gerði hann eins árs samning við Stoke þar sem Tony Pulis var knattspyrnustjóri. Íslenski framherjinn spilaði aðeins fjóra leiki fyrir Stoke og fór á láni til Fulham seinni hluta tímabilsins.

„Stoke var eitt af þeim liðum sem var tilbúið að borga launin mín. Ég var samt mjög efins og sat inn á skrifstofu þangað til fimm mínútur voru þar til að félagaskiptaglugganum var lokað,“ segir Eiður Smári í þáttaröðinni Gudjohnsen sem sýnd er í Sjónvarpi Símans.

„Tony Pulis fann að ég var efins og reif mig þá fram á gang og sagði að ég yrði aðalmaðurinn. Ég var það sem liðið þurfti. Hann sannfærði mig um að ég væri gæinn sem hann vantaði í liðið.“

Lítið var að marka orð Pulis því Eiður spilaði 74 mínútur í heildina fyrir Stoke og kom ekkert við sögu frá lokum október og þar til að hann yfirgaf félagið í janúar.

„Ég sé mikið eftir þeirri ákvörðun að hafa farið í Stoke. Það hefur ekkert með félagið að gera, það var bara þannig að samband mitt við þjálfarann dó eftir korter," segir Eiður Smári.

„Ég beið eftir því að komast heim. Ég fór yfir jólatímann og ræddi við hann um lítinn spiltíma. Hann sagði að þetta hefði ekki virkað. Ég stóð upp og barði í borðið.“

„Þetta er í fyrsta sinn á æfinni þar sem ég hef hótað því að hætta að mæta. Ég sagðist ætla að hætta að spila varaliðsleiki og ætlaði ekki að mæta æfingar. Ég borgaði sjálfur pening til Stoke til þess að komast í burtu,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×