Erlent

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar tvisvar á morgun

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Hernaðaryfirvöld í Rússlandi hafa haldið því fram að engin efnavopnaárás hafi verið gerð.
Hernaðaryfirvöld í Rússlandi hafa haldið því fram að engin efnavopnaárás hafi verið gerð. Vísir/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur til með að funda tvisvar á morgun vegna efnavopnaárásar sem gerð var á bæinn Douma í Austur-Ghouta í Sýrlandi í gærkvöldi. Beiðni um fund hefur bæði borist frá Rússum sem og Bandaríkjunum í kjölfar árásarinnar. Reuters greinir frá.

Rússar óskuðu eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag og stuttu síðar óskuðu Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Svíþjóð, Pólland, Holland, Kúveit, Perú og Fílabeinsströndin eftir fundi vegna málsins. Rússar hafa krafist þess að funda fyrst með ráðinu þar sem beiðni þeirra var lögð fram fyrst.

Stjórnarher Assads Sýrlandsforseta gerði loftárás á bæinn Douma í gær en tunnusprengju var varpað úr þyrlu. Hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir segja að um saríngas sé að ræða. Talið er að minnst sjötíu hafi látið lífið. Ríkisstjórn Sýrlands hefur hafnað ásökunum auk þess sem að hernaðaryfirvöld Rússlands hafa einnig haldið því fram að engin efnavopnaárás hafi verið gerð.

Guðlaugur Þór fordæmir árásina

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur fordæmt árásina og kallað eftir samstilltum aðgerðum Öryggisráðsins. Þá segir hann að sýrlensk yfirvöld verði að virða alþjóðalög. Leiðtogar stærstu ríkja heims hafa jafnframt fordæmt árásina í dag. Þá kallaði Donald Trump Bandaríkjaforseti Assad Sýrlandsforseta skepnu á Twitter síðu sinni.

Sýrlenski stjórnarherinn beitti einnig saríngasi í eiturefnaárásinni í apríl í fyrra en saríngas er banvænt efnavopn, um tuttugu sinnum banvænna en blásýra, og ræðst það að miðtaugakerfi líkamans og lamar öndunarfæri.

Douma er eini bærinn í Austur-Ghouta sem stjórnarherinn í Sýrlandi hefur ekki náð tökum á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×