Erlent

Stofnandi Facebook ætlar að svara bandarískri þingnefnd en ekki breskri

Kjartan Kjartansson skrifar
Zuckerberg tekur beiðni breskra þingmanna ekki fagnandi og ætlar að senda undirmann til að svara spurningum sem tengjast Cambridge Analytica.
Zuckerberg tekur beiðni breskra þingmanna ekki fagnandi og ætlar að senda undirmann til að svara spurningum sem tengjast Cambridge Analytica. Vísir/Getty

Uppfært 16:20  CNN segir nú að Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, ætli að bera vitni fyrir bandarískri þingnefnd. Þrýstingur frá þingmönnum, fjölmiðlum og almenning sé of mikill til að hann geti skorast undan. Upphafleg fréttin um að Zuckerberg ætli ekki að tala við breska þingnefnd fylgir hér á eftir.

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, ætlar að senda fulltrúa sinn til þess að svara spurningum breskra þingmanna um hvernig persónuupplýsingar um tugi milljóna notenda samfélagsmiðilsins enduðu í höndum umdeilds greiningarfyrirtækis. Þingmennirnir höfðu krafist þess að Zuckerberg bæri sjálfur vitni.

Greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica, sem vann meðal annars fyrir forsetaframboð Donalds Trump í Bandaríkjunum árið 2016, komst yfir gögn um fimmtíu milljónir Facebook-notenda í trássi við reglur samfélagsmiðilsins. Talið er að gögnin hafi verið notuð til þess að sérsníða áróður að bandarískum kjósendum.

Persónuvernd Bretlands rannsakar nú meðal annars fyrirtækið. Þá krafðist bresk þingnefnd þess að Zuckerberg kæmi fyrir hana og svaraði spurningum um málið.

Þrátt fyrir að hafa beðist afsökunar á mistökum Facebook að hafa ekki gætt persónuupplýsinga nógu vel í heilsíðuauglýsingu í breskum blöðum um helgina er Zuckerberg ekki tilbúinn að standa sjálfur fyrir máli sínu fyrir þingnefndinni.

Þess í stað ætlar hann að senda annað hvort Mike Schoepfer, tæknistjóra Facebook, eða Chris Cox, vörustjóra fyrirtækisins, að því er segir í frétt Reuters. Zuckerberg hefur einnig látið meðstjórnendum sínum eftir að svara bandarískum þingnefndum sem hafa rannsakað afskipti Rússa af forsetakosningunum, meðal annars í gegnum Facebook.

Formaður bresku þingnefndarinnar sem fjallar um stafræna miðla, menningu, fjölmiðla og íþróttir vill engu að síður ennþá ná tali af Zuckerberg. Hann segist ætla að kanna hvort að nefndarmenn geti náð tali af honum í persónu eða í gegnum fjarfundarbúnað.


Tengdar fréttir

Treysta Facebook ekki til að fylgja lögum

Facebook birti í dag auglýsingar í dagblöðum í Bandaríkjunum og í Bretlandi þar sem notendur voru beðnir afsökunar vegna máls Cambridge Analytica sem kom höndum yfir og notaði persónuupplýsingar um 50 milljóna notenda með óheiðarlegum hætti.

Zuckerberg baðst afsökunar á CNN

Mark Zuckerberg stofnandi og forstjóri Facebook hefur beðist afsökunar á því að Cambridge Analytica hafi tekist að hagnýta sér persónuupplýsingar Bandaríkjamanna með ólögmætum hætti í aðdaganda forsetakosninganna 2016. Hann segist tilbúinn að koma fyrir rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að svara spurningum um málið sé þess óskað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.