Erlent

Forveri Cambridge Analytica stærði sig af inngripum í erlendar kosningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Facebook hefur einnig átt í vök að verjast eftir uppljóstranir um hvernig Cambridge Analytica gat notað persónuupplýsingar um tugi milljóna notenda.
Facebook hefur einnig átt í vök að verjast eftir uppljóstranir um hvernig Cambridge Analytica gat notað persónuupplýsingar um tugi milljóna notenda. Vísir/AFP

Fyrirtækið sem varð síðar að Cambridge Analytica, greiningarfyrirtækinu umdeilda sem er sakað um að hafa nýtt illa fengnar persónuupplýsingar af Facebook, stærði sig af því að hafa átt við kosningar í löndum eins og Nígeríu.

Í bæklingi frá fyrirtækinu SCL Elections, sem síðar varð að Cambridge Analytica, fullyrðir það að það hafi skipulagt kosningafundi í Nígeríu til að fæla stuðningsfólk stjórnarandstöðu landsins frá því að kjósa árið 2007. Evrópskir kosningaeftirlitsmenn sögðu á þeim tíma að kosningarnar hefðu verið einar þær minnst trúverðugu sem þeir hefðu fylgst með.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að svo virðist sem að bæklingurinn sé frá því fyrir árið 2014 en þá byrjaði Cambridge Analytica að nota gögn um fimmtíu milljónir Facebook-notenda. Í bæklingnum er einnig að finna fullyrðingar um afskipti af kosningum í Lettlandi árið 2006 og í Trinidad og Tobago árið 2010.

SCL Elections fullyrti einnig að viðskiptavinir gætu komist í samband við fyrirtækið í gegnum bresk sendiráð og að það væri með öryggisheimild frá breska varnarmálaráðuneytinu til að sýsla með trúnaðargögn.

Fékk verktakasamninga við bresk stjórnvöld
Utanríkisráðuneyti Bretlands segist ekki hafa vitað af þessum ásökunum þegar SCL Elections fékk verktakaverkefni fyrir bresku ríkisstjórnina árið 2008. BBC segir að flest af því sem fyrirtækið talar um í bæklingnum hafi átt sér stað fyrir þá samninga.

Persónuvernd Bretlands rannsakar nú Cambridge Analytica vegna uppljóstrana um notkun fyrirtækisins á Facebook-gögnunum. Dómari veitti heimild til húsleitar á skrifstofum þess í London á föstudag.

Cambridge Analytica var stofnað árið 2013 á grunni SCL Elections sem hafði þá starfað mun lengur. Alexander Nix, forstjóri fyrirtækisins, var vikið tímabundið í starfi í vikunni á meðan ásakanirnar eru rannsakaðar.

Á upptökum sem Channel 4-sjónvarpsstöðin gerði á laun og birtar voru i vikunni heyrðist Nix og annar stjórnandi fyrirtækisins meðal annars lýsa því hvernig fyrirtækið hefði unnið í fjölda kosninga um allan heim með leynd. Sögðu þeir einnig frá hvernig þeir gætu leitt pólitíska andstæðinga í gildru með mútum og vændiskonum.


Tengdar fréttir

Vilja rannsaka Cambridge Analytica

Stjórnvöld í Bretlandi hafa ákveðið að fara fram á leitarheimild til þess að rannsaka gagnagrunna og gagnaver fyrirtækisins Cambridge Analytica.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.