Erlent

Húsleit heimiluð á skrifstofum Cambridge Analytica

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll keyrir fram hjá höfuðstöðvum Cambridge Analytica í miðborg London.
Lögreglubíll keyrir fram hjá höfuðstöðvum Cambridge Analytica í miðborg London. Vísir/AFP
Dómari á Bretlandi hefur veitt þarlendum persónuverndaryfirvöldum heimild til húsleitar á skrifstofum greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica. Greint hefur verið frá því að fyrirtækið hafi notast við persónuupplýsingar tuga milljóna Facebook-notenda sem fengnar voru með óheiðarlegum hætti.

The Guardian segir að rannsakendur sækist eftir skrám og gögnum fyrirtækisins. Rannsókn bresku persónuverndarinnar beinit að því hvort að Cambridge Analytica hafi notast við persónuupplýsingar um fimmtíu milljón bandarískra Facebook-notenda sem aflað var í gegnum persónuleikapróf á samfélagsmiðlinum.

Þær upplýsingar eru sagðar hafa verið notaðar til þess að sérsníða áróður að kjósendum í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 2016. Cambridge Analytica vann þá fyrir framboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Fyrirtækið auglýsti sig á þann hátt að það gæti haft áhrif á hegðun fólks með gangagreiningarvinnu sinni.

Leynilegar upptökur sem Channel 4-sjónvarpsstöðin birti í vikunni sýndu stjórnendur Cambridge Analytica lýsa því hvernig þeir hefðu unnið í kosningum í fjölda landa um allan heim á laun. Sögðu þeir meðal annars frá því hvernig þeir gætu leitt pólitíska andstæðinga í gildru með mútum og vændiskonum.

Alexander Nix, forstjóra Cambridge Analytica, var vikið tímabundið frá störfum í vikunni á meðan rannsókn fer fram.


Tengdar fréttir

Segir netið nýtt til sálfræðihernaðar gegn kjósendum

Þingmaður Pírata segir ríki heims hafa brugðist borgurum með allt of veikri persónu- og upplýsingaverndarlöggjöf. Hann segir sálfræðihernað hafa verið stundaðan gegn kjósendum á samfélagsmiðlum. Almannatengill segir ólíklegt að aðferðirnar myndu virka á Íslandi. Íslendingar séu fáir og hér þekki allir alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×