Erlent

Treysta Facebook ekki til að fylgja lögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þingmaðurinn Mark Warner, æðsti demókratinn í þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, sagði í dag að Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook og hæstráðandi, bæri að svara spurningum þingmanna.
Þingmaðurinn Mark Warner, æðsti demókratinn í þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, sagði í dag að Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook og hæstráðandi, bæri að svara spurningum þingmanna. Vísir/AFP
Almenningur í Bandaríkjunum og Þýskalandi er að missa traust á Facebook og því hvernig fyrirtækið meðhöndlar persónuupplýsingar notenda. Facebook birti í dag auglýsingar í dagblöðum í Bandaríkjunum og í Bretlandi þar sem notendur voru beðnir afsökunar vegna máls Cambridge Analytica sem kom höndum yfir og notaði persónuupplýsingar um 50 milljóna notenda með óheiðarlegum hætti.

Samkvæmt könnun Reuters og Ipsos treysta tæplega fimmtíu prósent Bandaríkjamanna Facebook til að fylgja lögum ríkisins um meðhöndlun persónuupplýsinga. Önnur könnun sem gerð var fyrir Bild am Sonntag bendir til þess að um 60 prósent Þjóðverja segja Facebook og aðra samfélagsmiðla hafa neikvæð áhrif á lýðræði.



66 prósent sögðust treysta Amazon til að fylgja lögum, 62 prósent sögðust treysta Google og 60 prósent sögðust treysta Microsoft.

Í áðurnefndri auglýsingu Facebook stóð að fyrirtækið bæri skyldu til þess að verja persónuupplýsingar notenda og ef þeir gætu það ekki, ættu þeir ekki rétt á því að öðlast þessar upplýsingar.

Cambridge Analytica keypti gögnin í gegnum utanaðkomandi aðila sem sagði Facebook að hann væri að safna gögnum fyrir rannsóknir. Aleksandr Kogan safnaði gögnunum meðal annars í gegnum snjalltækjaforritið thisisyourdigitallife. Hundruðum þúsunda aðila var greitt fyrir að nota forritið til að taka persónuleikapróf og var þeim sagt að gögnin yrðu notuð til rannsókna.

Auk þess að taka upplýsingar þeirra sem tóku áðurnefnt persónuleikapróf safnaði forritið einnig upplýsingum Facebookvina þeirra. Samkvæmt reglum Facebook var Kogan þó óheimilt að selja upplýsingarnar eða nota þær í öðrum tilgangi.

Upplýsingarnar voru notaðar til að sérsníða áróður að kjósendum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016.

Sjá einnig: Greiningarfyrirtæki tengt Trump hnuplaði gögnum um milljónir



Þingmaðurinn Mark Warner, æðsti demókratinn í þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, sagði í dag að Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook og hæstráðandi, bæri að svara spurningum þingmanna.



Hann þyrfti að útskýra fyrir þingmönnum og öllum hvernig fyrirtækið ætlaði að verja gögn notenda og tryggja að atvik sem þetta gæti ekki stungið upp kollinum aftur.

Warner sagðist einnig vilja ræða við Steve Bannon. Hann var varaforseti Cambridge Analytica þegar fyrirtækið kom höndum yfir upplýsingarnar og áður en hann tók að sér að stýra framboði Donald Trump.

Bannon sagði fyrr í vikunni að hann mundi ekki til þess að hafa keypt persónuupplýsingarnar sem um ræðir.


Tengdar fréttir

Zuckerberg baðst afsökunar á CNN

Mark Zuckerberg stofnandi og forstjóri Facebook hefur beðist afsökunar á því að Cambridge Analytica hafi tekist að hagnýta sér persónuupplýsingar Bandaríkjamanna með ólögmætum hætti í aðdaganda forsetakosninganna 2016. Hann segist tilbúinn að koma fyrir rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að svara spurningum um málið sé þess óskað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×