Íslenski boltinn

Sjáðu Messi-takta Birnis, sprellimark Guðmundar og hin mörkin úr stórsigri Fjölnis

Fjölnir vann glæsilegan sigur á Stjörnunni í þriðju umferð riðils þrjú í A-deild Lengjubikars karla í fótbolta í Egilshöllinni í gærkvöldi, 5-2, en leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Mörkin í leiknum voru ekki bara mörg heldur voru þau flest öll nokkuð glæsileg. Markasúpan hófst á 17. mínútu þegar að Anton Freyr Ársælsson þrumaði boltanum í slána og inn fyrir Grafarvogsliðið.

Fjölnir komst í 2-0 áður en Guðmundur Steinn Hafsteinsson minnkaði muninn þegar að Þórður Ingason, markvörður og fyrirliði Fjölnis, skaut boltanum í hann og í markið. Klaufalegt en skondið mark.

Stjarnan jafnaði metin á 30. mínútu og staðan 2-2 í hálfleik en á 56. mínútu kom hinn stóri og stæðilegi Ægir Jarl Jónasson Fjölni aftur yfir með skalla langt utan úr teig yfir Terrence William Dietrich í marki Stjörnunnar, 3-2.

Þórir Guðjónsson skoraði svo fjórða mark Fjölnis úr vítaspyrnu fimm mínútum síðar en síðasta mark leiksins var afskaplega glæsilegt. Það skoraði Birnir Snær Ingason á 68. mínútu.

Birnir fékk boltann á miðjum vellinum og tók á sprett að marki. Hann fíflaði Óttar Bjarna Guðmundsson upp úr skónum rétt fyrir framan vítateiginn og fór svo illa með Baldur Sigurðsson áður en hann renndi boltanum snyrtilega í netið. Hugguleg Messi-tilþrif hjá Birni Snæ sem hefur verið að spila vel á undirbúningstímabilinu.

Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar á undirbúningstímabilinu en liðið vann alla fjóra leiki síðan í Fótbolti.net-mótinu á leið sinni til sigurs þar og var búið að vinna fyrstu tvo leikina í Lengjubikarnum.

Það sem meira er var Stjarnan aðeins búin að fá á sig tvö mörk í þessum sex leikjum þannig Fjölnir meira en tvöfaldaði þann fjölda í leiknum.

Markasúpuna má sjá hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.