Erlent

Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitri

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar standa vörð við heimili Skripal.
Lögregluþjónar standa vörð við heimili Skripal. Vísir/AFP
Fyrrverandi rússneski njósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitri samkvæmt lögreglu og liggja þau þungt haldin á gjörgæslu. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð á sunnudaginn. Talið er að um árás hafi verið að ræða og er málið rannsakað sem morðtilraun. Tveir lögregluþjónar og sjúkraflutningamaður urðu einnig fyrir áhrifum efnisins. Annar lögregluþjónninn er í alvarlegu ástandi.

Lögreglan hefur ekki gefið upp um hvers konar taugaeitur sé að ræða.

Vísir/GraphicNews
Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eitur er byrlað fyrir Rússneskum aðila í Bretlandi og gruna yfirvöld Bretlands þegar að yfirvöld Rússlands hafi komið að árásinni. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, gaf í skyn í gær að England myndi mögulega ekki taka þátt í HM í Rússlandi í sumar vegna málsins.

Sjá einnig: Senda Rússum tóninn vegna undarlegra veikinda njósnara

Samkvæmt umfjöllun Guardian er lögreglan í Bretlandi meðal annars að rannsaka hver framkvæmdi árásina, hvort meira sé af taugaeitri í Bretlandi og hvaðan það kom.



Efnavopnasérfræðingar segja Guardian að nánast sé ómögulegt að framleiða taugaeitur án mikillar þekkingar og þjálfunar. Þar að auki þurfi sérstakan búnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×