Erlent

Minnisblað Demókrata sent til Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins.
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins. Vísir/AFP
Þingnefnd fulltrúadeildarinnar um njósnamál hefur ákveðið að opinbera minnisblað Demókrata, sem er svar þeirra við umdeildu minnisblaði Devin Nunes. Minnisblaðið fer því á skrifborð Donald Trump sem hefur fimm daga til að staðfesta ákvörðun nefndarinnar eða koma í veg fyrir birtingu minnisblaðsins.



Nunes heldur því fram í minnisblaði sínu að Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hafi beitt óheiðarlegum aðferðum til þess að fá heimildir til þess að hlera Carter Page, fyrrverandi starfsmann framboðs Donald Trump.

Adam Schiff og aðrir Demókratar í nefndinni segja hins vegar að Nunes hafi sérvalið upplýsingar úr tuga blaðsíðna heimildarbeiðni FBI til þess að styðja við ásakanir sínar og sleppt því að nefna aðrar upplýsingar.

Schiff tilkynnti ákvörðun nefndarinnar nú í kvöld og sagði árásir Trump og stuðningsmanna hans á FBI vera til marks um örvæntingu á meðal þeirra. Hann sagðist telja að þetta muni hjálpa til við að upplýsa almenning um afbökun sannleikans og rangfærslur í minnisblaði Nunes.

Það er þó alls ekki víst að Trump muni styðja birtingu minnisblaðsins. Hann hefur haldið því fram að minnisblaði Nunes hafi hreinsað sig af ásökunum. Þá birti hann tíst í dag þar sem hann sakaði Schiff um að leka upplýsingum frá fundum nefndarinnar til fjölmiðla.

„Litli Adam Schiff, sem er dauðlangar að bjóða sig fram til hærri stöðu, er einn af stærstu lygurum og lekurum Washington, hann er þarna efst uppi með Comey, Warner, Brennan og Clapper! Adam yfirgefur lokaða nefndarfundi til þess að leka leynilegum upplýsingum með ólöglegum hætti. Verður að vera stöðvaður,“ skrifaði Trump í dag.

Skömmu seinna fór hann fögrum orðum um Nunes og sagði hann heiðarlegan og harðgerðan mann. Trump sagðist vonast til þess að hann yrði viðurkenndur sem sú bandaríska hetja sem hann væri.


Tengdar fréttir

Vara Trump við að feta í fótspor Nixon

Þingmenn demókrata í báðum deildum Bandaríkjaþings hafa varað Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, við að reka háttsetta embættismenn sem sjá um Rússarannsóknina svokölluðu

Alríkislögreglan grípur til varna

Ríkisstjórn Donald Trump og bandamenn hans á þingi standa nú í opinberum slag við Alríkislögreglu Bandaríkjanna og Dómsmálaráðuneytið.

Árásum íhaldsmanna á FBI fjölgar

Útlit er fyrir að Repúblikanar séu með markvissum hætti að reyna að grafa undan trúverðugleika FBI og Mueller. Í það minnsta meðal stuðningsmanna flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×