Erlent

Systir Kim Jong-un mætir á setningarhátíð Ólympíuleikanna

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Yo-jong (önnur frá vinstri) er áhrifamikil innan valdaklíku Norður-Kóreu, en hún er yngsta dóttir leiðtogans fyrrverandi Kim Jong-il. Í forgrunni er Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Yo-jong (önnur frá vinstri) er áhrifamikil innan valdaklíku Norður-Kóreu, en hún er yngsta dóttir leiðtogans fyrrverandi Kim Jong-il. Í forgrunni er Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Kim Yo-jong, systir norðurkóreska leiðtogans Kim Jong-un, mun mæta á setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna í PyeongChang í Suður-Kóreu á föstudaginn.

Frá þessu greina ráðherrar í ríkisstjórn Suður-Kóreu.

Kim Yo-jong er áhrifamikil innan valdaklíku Norður-Kóreu, en hún er yngsta dóttir leiðtogans fyrrverandi Kim Jong-il. Staða hennar innan stjórnarinnar styrktist á síðasta ári þegar hún tók sæti í stjórnmálanefnd landsins.

Keppendur Norður- og Suður-Kóreu munu ganga inn á völlinn á setningarhátíðinni undir sameiginlegum fána, en nokkurrar þíðu hefur gætt í samskiptum ríkjanna að undanförnu. Fréttaskýrendur telja þó ólíklegt að Norður-Kóreumenn ætli sér að draga úr kjarnorkuáætlunum sínum.

Nýta leikana í áróðursskyni

Bandaríkjastjórn telur að Norður-Kóreumenn ætli sér að nýta Ólympíuleikana í áróðursskyni. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, verður fulltrúi Bandaríkjastjórnar á setningarhátíðinni.

Alls munu Norður-Kóreumenn senda 280 manna sendinefnd þar sem meirihlutinn eru klappstýrur.

22 norðurkóreskir íþróttamenn munu keppa á leikunum, þar af tólf sem verða hluti af sameiginlegu íshokkíliði Norður- og Suður-Kóreu í kvennaflokki.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.