Erlent

Þolendur barnaníðsins fá bætur og formlega afsökunarbeiðni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Malcolm Turnbull segir niðurstöður skýrslunnar hryggilegar.
Malcolm Turnbull segir niðurstöður skýrslunnar hryggilegar. VÍSIR/AFP
Forsætisráðherra Ástralíu hefur lýst því yfir að hann muni biðja alla Ástrala sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi í æsku formlega afsökunar fyrir hönd ríkisins. Þá verða þeim einnig bætur sem gætu numið um 10 milljónum íslenskra króna.

Yfirlýsing Malcoms Turnbull kemur í kjölfar skýrslunnar, sem byggði á fjögurra ára rannsóknarvinnu, sem sýndi fram á að tugþúsundir ástralskra barna hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi innan stofnanna, ríkisfyrirtækja og félagasamtaka í Ástralíu.

Nánar má fræðast um skýrsluna hér: Kerfisbundið barnaníð í Ástralíu

Ofbeldið hafði staðið yfir í áratugi og átti sér stað í kirkjum, skólum og íþróttafélögum. Talið er að þolendur geti verið rúmlega 60 þúsund. Turnbull segist ætla að flytja afsökunarbeiðnina síðar á þessu ári og verður hún skrifuð í samráði við fulltrúa þolenda.

Rannsóknarnefndin lagði fram um 400 tillögur að því hvernig mætti vinna á hinu kerfisbundna barnaníði. Meðal þeirra var að kaþólska kirkjan endurskoðaði stefnu sína um skírlífi presta.

„Tugir þúsunda barna hafa verið misnotuð kynferðislega innan margra ástralskra stofnana. Við munum aldrei komast að því hver rétt tala er. Hér er ekki um nokkra „svarta sauði“ að ræða. Eitthvað alvarlegt er að stærstu stofnunum samfélagsins,“ segir í skýrslu nefndarinnar sem byggði á viðtölum við næstum 8000 manns.

Áströlsk stjórnvöld hafa eyrnamerkt um 2,3 milljarða íslenskra króna í bótagreiðslur til eftirlifandi þolenda. Breska ríkisútvarpinu reiknast til að það gæti þýtt að hver og einn gæti fengið á annan tug milljóna í sinn hlut.


Tengdar fréttir

Kerfisbundið barnaníð í Ástralíu

Skýrsla upp úr fimm ára rannsókn ástralskrar rannsóknarnefndar birtist í gær. Hún sýnir fram á að alvarlegum brotum hafi verið leyft að viðgangast innan helstu samfélagsstofnana Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×