Erlent

Íhuga að stöðva fjárveitingar til geimstöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimstöðin hefur verið á braut um jörðu í rúmlega sjö þúsund daga.
Geimstöðin hefur verið á braut um jörðu í rúmlega sjö þúsund daga. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Donald Trump íhugar að skera á fjármagn til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og ekki reyna að framlengja líftíma hennar lengur en til 2024. Þegar Barack Obama var forseti var líftími hennar framlengdur til þess árs og er Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, að íhuga hvort og þá hvernig hægt sé að halda henni gangandi til ársins 2028.

Hvíta húsið mun leggja fram fjárhagsáætlun sína í næsta mánuði en blaðamenn The Verge hafa séð drög að áætluninni og segja að þar komi fram að stöðva eigi fjárveitingar til geimstöðvarinnar.Geimstöðin hefur verið á braut um jörðu í rúmlega sjö þúsund daga, samkvæmt talningu NASA. Það tók um tvö ár að skjóta hlutum hennar á loft og setja hana saman. Geimfarar hafa haldið til í geimstöðinni frá árinu 2000 og verja þeir nú miklum tíma í að gera sjá um viðgerðir. NASA ver þremur til fjórum milljörðum dala í stöðina á ári og í heildina er talið að Bandaríkin hafi lagt 87 milljarða í hana.

 

Donald Trump hefur heitið bjartri framtíð varðandi geimferðir Bandaríkjanna. Samkvæmt frétt Washington Post endurvakti hann hið opinbera Geimráð og hefur Hvíta húsið talað um að snúa aftur til tunglsins og að byggja þar bækistöð.NASA gaf út tilkynningu í dag þar sem segir að stofnunin standi við bakið á geimstöðinni þar sem hún sé grunnurinn að ferðum mannanna lengra út í geim. Sömuleiðis segir Boeing, fyrirtækið sem sér um rekstur stöðvarinnar fyrir NASA, að það væru mistök að framlengja ekki líftíma hennar. Slík ákvörðun gæti ógnað forystu Bandaríkjanna í geimferðum og sömuleiðis komið niður á vísindum og einkareknum fyrirtækjum eins og SpaceX, Orbital ATK og Sierre Nevada Corp.

Í stað þess að verja miklum fjármunum í geimstöðina vilja bandarískir þingmenn að NASA þrói og framleiði eldflaugar og geimför sem komið geta mönnum lengra út í geim. Sömuleiðis væri hægt að þróa áðurnefnda tunglstöð.

Einkafyrirtæki vinna að því að byggja geimstöðvar sem geta verið á braut um jörðu. Fyrirtækið Bigelow Aerospace hefur til dæmis sent einn hluta mögulegra framtíðar-geimstöðvar á braut um jörðu og er hann fastur við Alþjóðlegu geimstöðina.

Það er þó alls ekki víst að einkafyrirtæki verði tilbúin og með nothæfar geimstöðvar á braut um jörðu árið 2024.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá myndavélum á geimstöðinni og hér má sjá hvar hún er stödd.


Broadcast live streaming video on UstreamFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.