Erlent

2017 var hlýjasta árið án aðstoðar El niño

Kjartan Kjartansson skrifar
Kort NOAA sem sýnir frávik frá meðaltalshita 20. aldar á jörðinni árið 2017.
Kort NOAA sem sýnir frávik frá meðaltalshita 20. aldar á jörðinni árið 2017. NOAA

Hrinu meta í meðalhita jarðar lauk í fyrra en samkvæmt gögnum tveggja bandarískra vísindastofnana var árið 2017 á meðal þriggja hlýjustu ára frá upphafi mælinga. Árið var hins vegar það hlýjasta fram að þessu þar sem áhrifa El niño-veðurfyrirbrigðisins gætti ekki.

Bandaríska geimvísindastofnunin (NASA) og Haf- og loftslagsstofun Bandaríkjanna (NOAA) birtu niðurstöður sínar fyrir árið í fyrra í gær. Stofnanirnar nota aðeins ólíkar aðferðir við mælingar sínar. Samkvæmt tölum NASA var 2017 annað hlýjasta árið frá upphafi mælinga en það þriðja hlýjasta samkvæmt gögnum NOAA.

Síðustu þrjú ár á undan, 2014, 2015 og 2016, höfðu öll slegið met sem hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Síðustu þrjá ár hafa verið þau hlýjustu í 138 ára mælingasögunni. Sautján af átján hlýjustu árum mælingasögunnar frá árin 1850 hafa verið á þessari öld, að því er segir í frétt The Guardian.

„Plánetan er að hlýna merkilega jafnt,“ segir Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastofnunar NASA.

Takmörkum Parísarsamkomulagsins náð innan tveggja áratuga
Árin 2015 og 2016 voru sérlega hlý vegna þess að þá var El niño-veðurfyrirbrigðið í gangi í Kyrrahafi sem veldur hlýnun þar.

Stefan Rahmstorf frá Potdsam-loftslagsáhrifarannsóknastofnuninni segir við The Guardian að meðalhiti jarðar hafi hækkað verulega frá því að síðasti stóri El niño-viðburðurinn átti sér stað árið 1998.

„Á aðeins átján árum hefur losun okkar á gróðurhúsalofttegundum þrýst meðalhita jarðar upp um heilar 0,4°C. Með sama áframhaldi munum við fara fram úr takmörkum Parísarsamkomulagsins um 1,5°C þegar innan tveggja áratuga,“ segir Rahmstorf.

Ríkisstjórn Donalds Trump í Bandaríkjunum hefur undið ofan af loftslagsaðgerðum bandarískra stjórnvalda síðasta árið. Fjöldi ráðherra og forstöðumanna ríkisstofnana sem Trump hefur skipað þræta fyrir vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum.

Þannig segir Washington Post að þegar niðurstöður NASA og NOAA voru bornar undir Hvíta húsið hafi Raj Shah, aðstoðarblaðafulltrúi þess, vísað til þess að „loftslagið hafið breyst og sé alltaf að breytast“. Það hefur verið algengt viðkvæði þeirra sem afneita því að menn beri ábyrgð á hlýnun jarðar með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með brennslu á jarðefnaeldsneyti.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.