Tvö frábær mörk í jafntefli Spurs og West Ham á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heung-min Son fagnar jöfnunarmarkinu sínu.
Heung-min Son fagnar jöfnunarmarkinu sínu. vísir/getty
Tottenham og West Ham gerðu 1-1 jafntefli í Lundúnaslag á Wembley í kvöld í lokaleik 22. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Bæði lið skoruðu tvö stórglæsileg mörk með langskotum í seinni hálfleik sem lífguðu heldur betur upp á daufan leik.

Framan af leik var ekki mikið að gerast í leiknum en það breyttist allt á síðustu tuttugu mínútunum.

Tottenham var miklu hættulegra allan leikinn enda spiluðu gestirnir stífan varnarleik allan leikinn.

Pedro Obiang kom samt West Ham yfir á 70. mínútu með frábæru skoti af 25 metra færi sem Hugo Lloris átti ekki möguleika að verja. Þetta var fyrsta tilraun West Ham í leiknum.

Tottenham svaraði fjórtán mínútum síðar en nú var það Heung-min Son sem lét vaða af 25 metra færi og boltinn þandi netmöskvanna.

Tottenham átti möguleika á að vinna fjórða deildarleikinn sinn í röð og nálgast efstu liðin en sá á eftir tveimur stigum á heimavelli.

Tottenham er því áfram í fimmta sæti deildarinnar, nú þremur stigum á eftir Liverpool sem er í fjórða sætinu.

West Ham komst upp fyrir Bournemouth og í fimmtánda sæti deildarinne en liðið er nú tveimur stigum frá fallsæti. West Ham hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu sjö leikjum sínum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira