Erlent

Fundu blóð úr norskri konu sem saknað er

Atli Ísleifsson skrifar
Síðast sást til Janne Jemtland að morgni 29. desember síðastliðinn.
Síðast sást til Janne Jemtland að morgni 29. desember síðastliðinn. Norska lögreglan/Getty
Lögregla í Noregi hefur staðfest að blóð sem fannst á jörðinni í norskum skógi í gær sé úr Janne Jemtland, 36 ára norskri konu sem hefur verið saknað síðan fyrir áramót.

Aukinn þungi mun nú færast í leitina að konunni að því er fram kemur í frétt NRK.

Mál Jemtland hefur vakið mikla athygli í Noregi en blóðið fannst á vegi í Brumunddal, um hundrað kílómetrum norður af höfuðborginni Ósló.

Blóðsletturnar fundust í snjónum í kanti Lillehaugvegen en lögregla hefur lagt sérstaka áherslu á svæði í kringum hús við Ånnerudvegen í leitinni að Jemtland. Verið er að fínkemba svæðið í kringum húsið og hefur verið notast við dróna og leitarhunda. Húsið er um hundrað metra frá staðnum þar sem blóðsletturnar fundist í snjónum í gær.

Var í jólaboði

Janne Jemtland hefur verið saknað síðan 29. desember. Síðast sást til Jemtland á heimili hennar í Veldre um klukkan 2 að nóttu, 29. desember. Jemtland og eiginmaður hennar höfðu þá verið í jólaveislu og tekið leigubíl heim. Það var eiginmaður hennar sem tilkynnti um hvarf hennar þann 30. desember.

Húsið, sem er nálægt staðnum þar sem blóðið fannst, er um ellefu kílómetrum frá heimili Jemtland í Veldre. Blóð úr Jemtland hafði einnig fundist síðasta fimmtudag, ekki langt frá staðnum þar sem blóð fannst í gær.

Lögregla hefur yfirheyrt fjölda vina, nágranna og fjölskyldumeðlima Jemtland vegna hvarfsins. Síðustu merki úr síma hennar voru í Brumunddal, klukkan 5:50 sömu nótt og síðast sást til hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×