Erlent

Ahmed Shafik hyggst ekki bjóða sig fram til forseta

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Shafik bauð sig fram til forseta árið 2012 en tapaði naumlega þeim kosningum.
Shafik bauð sig fram til forseta árið 2012 en tapaði naumlega þeim kosningum. Vísir/AFP
Ahmed Shafik, fyrrverandi forsætisráðherra Egyptalands, hyggst ekki bjóða sig fram til forseta í komandi forsetakosningum þar í landi. Shafik hafði legið undir feldi síðustu mánuði en hann hafði ítrekað verið orðaður við embættið.

Shafik, sem einnig hefur gegnt stöðu yfirmanns flughers Egyptlands, hafði hingað til verið talinn einna líklegastur til að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta Abdel Fattah al-Sisi. Þess ber að geta að Sisi á enn eftir að tilkynna það hvort hann bjóði sig fram.

„Ég tel mig ekki vera ákjósanlegasta einstaklinginn til að stjórna landinu á komandi kjörtímabili. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram fyrir kosningarnar 2018,“ sagði Shafik í yfirlýsingu í dag.

Ahmed Shafik bauð sig fram til forseta í Egyptalandi árið 2012 en tapaði þeim kosningum naumlega fyrir Mohamed Morsi. Morsi gaf í kjölfarið út handtökuskipan á hendur Shafik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×