Enski boltinn

Þjálfari Harðar Björgvins hvergi banginn fyrir City leikinn: Þeir eru mannlegir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Johnson og Hörður Björgvin Magnússon.
Lee Johnson og Hörður Björgvin Magnússon. Vísir/Getty
Lee Johnson, knattspyrnustjóri Bristol City, var með augun á undanúrslitaleik enska deildabikarsins þegar liðið mætti Watford í enska bikarnum um helgina.

Hörður Björgvin Magnússon og félagar mæta Manchester City á Etihad-leikvanginum annað kvöld og í boði er sæti í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley.

Lee Johnson hvíldi fullt af leikmönnum í bikartapinu á móti Watford og hann er hvergi banginn þegar kemur að því að mæta liðinu sem er löngu búið að stinga af í ensku úrvalsdeildinni.

Bristol City sló Manchester United út úr átta liða úrslitunum og hafði áður slegið út úrvalsdeildarfélögin Stoke, Crystal Palace og Watford. Það er búist við því að 7680 stuðningsmenn Bristol City ferðist norður til Manchester til að styðja liðið og það snýst allt um þennan leik á móti Manchester City.

Johnson hafði betur gegn Jose Mourinho síðast og núna er komið að leik á móti liði Pep Guardiola.

„Það er stórkostlegt að fá strax að reyna sig aftur á móti heimsklassa stjóra. Það er frábært fyrir mig sem ungan stjóra að fá að ræða aðeins við þessa toppstjóra,“ sagði Lee Johnson við Telegraph.

„Við þessir ungu viljum læra og það er alltaf áhugavert að fá að eyða smá tíma með þessum köppum. Ég væri alveg til í að sitjast niður með þjálfaratöfluna og fara yfir nokkrar hugmyndir með þeim,“ sagði Lee Johnson.

„Þetta er risastór leikur. Manchester City er eitt af bestu liðum sem England hefur séð. Þegar allt kemur til alls þá eru þeir bara mannlegir. Við höfum staðið okkur vel á móti bestu liðunum og það gaf okkur sjálfstraust að hafa unnið Manchester United. Strákarnir hafa sýnt að þeir óttast engan og við ætlum að sjá hvað við getum gert,“ sagði Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×