Síðasta umferðin í Pepsi-deild karla er spiluð í dag og það þarf margt að gerast til þess að Valsmenn standi ekki uppi sem Íslandsmeistarar í dag.
Valsmenn þurfa að tapa gegn Keflavík á heimavelli og Breiðablik eða Stjarnan að vinna sína leiki.
Blikarnir halda í vonina og þegar að Keflvíkingar keyrðu framhjá Kópavogsvelli í dag í leið sinni á Hlíðarenda voru skilaboð frá Blikunum.
„Áfram Keflavík,” stóð á LED-skjánum við Kópavogsvöllinn og Kópacabana skrifað undir, sem er stuðningsmannasveit Blika.
K-ið í Kópacabana var skrifað með Keflavíkurmerkinu svo Blikarnir eru að gera allt til þess að koma Keflvíkingum í gang fyrir lokaleikinn.
Fylgst verður vel með öllum leikjum dagsins á Vísi í dag.
