Erlent

Forstjóri CIA heyrði upptöku af morðinu á Khashoggi

Kjartan Kjartansson skrifar
Upptakan sem Haspel á að hafa fengið að heyra er sögð varpa ljósi á hvernig Khashoggi var pyntaður og myrtur á ræðisskrifstofu Sáda.
Upptakan sem Haspel á að hafa fengið að heyra er sögð varpa ljósi á hvernig Khashoggi var pyntaður og myrtur á ræðisskrifstofu Sáda. Vísir/EPA
Tyrknesk yfirvöld leyfðu Ginu Haspel, forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA, að heyra hljóðupptöku af morðinu á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi þegar hún heimsótti Tyrkland í vikunni.

Haspel hélt til Tyrklands á mánudag til að afla upplýsinga um morðið á Khashoggi. Hann var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl fyrir rúmum þremur vikum. Sádar hafa orðið margsaga um hvernig dauða Khashoggi bar að. Tyrknesk yfirvöld hafa hins vegar sagst hafa sannanir fyrir því að teymi fimmtán manna sem sent var frá Sádi-Arabíu hafi myrt hann á hrottalegan hátt á ræðisskrifstofunni.

Á meðal þeirra sannana er hljóðupptaka sem sögð er varpa ljósi á hvernig Sádarnir hafi pyntað og myrt blaðamanninn. Recep Erdogan, forseti Tyrklands, sagði á þriðjudag að morðið hefði verið að yfirlögðu ráði. Sádar hafa haldið því fram að morðingjarnir hafi ekki verið í umboði stjórnvalda.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að Haspel hafi fengið að heyra hljóðupptökuna í heimsókninni til Tyrklands. Hvorki fulltrúar CIA né tyrknesku leyniþjónustunnar vildu tjá sig um það.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að Tyrkir hafi ekki í hyggju að fara með málið fyrir alþjóðadómstóla. Þeir muni hins vegar deila upplýsingum ef alþjóðleg rannsókn yrði sett af stað.


Tengdar fréttir

Trump segir sádi-arabíska krónprinsinn mögulega viðriðinn morðið á Khashoggi

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur í fyrsta sinn látið hafa eftir sér að Mohammed bin Salman, sádi-arabíski krónprinsinn, geti mögulega verið viðriðinn morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi sem myrtur var í byrjun október í kjölfar heimsóknar á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi.

Dularfulla morðið á Jamal Khashoggi

Þó að enn sé margt á huldu varðandi morðið á Khashoggi hefur ýmislegt komið fram í fréttum undanfarnar vikur. Hér verður tekið það saman það helsta sem komið hefur fram um þetta dularfulla morð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.