Sex leikir eru á dagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í dag en enginn hádegisleikur er í boði þennan laugardaginn.
Þrettánda umferðin hófst í gær þegar West Ham og Leicester skildu jöfn í Lundúnum og gætu Hamrarnir setið í næstneðsta sæti deildarinnar í lok dags þar sem Swansea á heimaleik gegn Bournemouth í dag og gæti komið sér í ellefu stig með sigri.
Tottenham Hotspur fær stjóralaust WBA lið í heimsókn á Wembley en Gary Megson stýrir WBA tímabundið á meðan leit að eftirmanni Tony Pulis stendur yfir. Tottenham í fjórða sæti deildarinnar á meðan WBA er í 17.sæti.
Manchester United fær nýliða Brighton í heimsókn en þeir hafa komið liða mest á óvart og sitja í níunda sæti með sextán stig, tíu stigum minna en Manchester United sem er í öðru sæti deildarinnar og getur komið sér nær grönnum sínum í Manchester City með sigri.
Þá fær Newcastle Watford í heimsókn á meðan Crystal Palace og Stoke eigast við en stórleikur dagsins er seinnipartinn eða klukkan 17:30 þegar Liverpool og Chelsea eigast við á Anfield. Heimamenn freista þess að jafna Chelsea að stigum en þremur stigum munar á liðunum sem eru í þriðja og fimmta sæti deildarinnar.
