Enski boltinn

Brian Clough: Mourinho er alveg eins og pabbi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho og Brian Clough eru líkir segir sonur Cloughs.
José Mourinho og Brian Clough eru líkir segir sonur Cloughs. vísir/getty
Manchester United fær Burton Albion í heimsókn í kvöld í enska deildabikarnum en knattspyrnustjóri Burton er Nigel Clough, sonur goðsagnarinnar Brian Clough sem gerði Nottingham Forest tvívegis að Evrópumeistara á áttunda áratug síðustu aldar.

Brian Clough, sem lést árið 2004, 69 ára að aldri, er einhver færasti og orðheppnasti maður í sögu enska fótboltans og oftast sagður sá besti sem aldrei stýrði enska landsliðinu. Enska knattspyrnusambandið þorði ekki að fá hann til starfa.

Clough sagði það sem honum datt í hug þegar að honum datt það í hug en sjónvarpsmenn elskuðu hann. Það er því ekki að ástæðulausu að sonur hans líkir honum við José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United.

„Þeir eru líkir að mörgu leyti eins og hvernig þeir tækla hlutina og ganga hreint til verks. Hlutirnir eru bara svartir og hvítir og ekkert öðruvísi. Ef leikmaður stendur sig hjá þeim er hann í liðinu og þannig er það bara,“ segir Nigel Clough.

„Þeir eru líka svipaðir þegar kemur að því að tjá sig við fjölmiðla. Mourinho er eins og pabbi því hann segir bara það sem hann er að hugsa,“ segir Clough.

Fyrir þá sem vilja kynnast Brian Clough aðeins betur má benda á eina af nokkrum heimildamyndum um kappann hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×