Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, hyggst koma hluta af umbeðnum gögnum til nefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum sem fram fóru á síðasta ári.
AP greindi frá þessu í gærkvöldi, sama dag og lögmaður Trump, Michael Cohen, neitaði þingnefnd fulltrúadeildarinnar um upplýsingar.
Greint var frá því í síðustu viku að Flynn hafi neitað að afhenda þingnefnd gögn í tengslum við rannsóknina. Sagðist hann ætla að nýta sér stjórnarskrárvarin réttindi sín sem tryggja að ekki sé hægt að krefja vitni um að svara ásökunum sem gætu komið sök á hann sjálfan.
Flynn tók við starfi þjóðaröryggisráðgjafa í janúar en lét af störfum í tæpum mánuði síðar eftir að upp komst að hann sagði ósatt um samskipti sín við rússneskan sendiherra í aðdraganda valdaskiptanna.
Leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings rannsakar nú tengsl starfsmanna kosningabaráttu Trump við Rússland en Flynn var einnig ráðgjafi Trump í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum síðastliðið haust.
Flynn hyggst koma gögnum til þingnefndar
Atli Ísleifsson skrifar
