Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, segir refsiaðgerðirnar, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma á laugardag, vera „ofbeldisfullt brot á fullveldi þjóðarinnar.“ Þá hafnar Norður Kórea frekari viðræðum við þau ríki sem aðild eiga að refsiaðgerðunum, að því er segir í frétt BBC.
Stjórnvöld Norður-Kóreu segja enn fremur, í þessu fyrsta opinbera svari sínu við aðgerðum öryggisráðsins, að þau muni halda áfram prófunum á kjarnorkuvopnum og að lát á þeim sé ekki til umræðu. Í yfirlýsingu ríkisfréttastofunnar sagði meðal annars að yfirvöld landsins myndu láta Bandaríkin „borga fyrir glæp sinn dýru verði [...] svo nemi þúsundum skipta,“ og vísuðu þar til aðildar Bandaríkjanna að refsiaðgerðunum.

Þá staðfesti utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, á ráðstefnunni í Manila að Kínverjar ætli að öllu leyti að standa við refsiaðgerðirnar.
Markmið refsiaðgerðanna er að letja útflutning Norður-Kóreu. Kína, eitt ríkjanna sem er með neitunarvald í öryggisráðinu og einn af helstu stuðningsmönnum yfirvalda í Norður-Kóreu, samþykkti meðal annars refsiaðgerðirnar. Haft hefur verið eftir Liu Jieyi, sendiherra Kína í Bandaríkjunum, að þetta væri merki þess að mikil samstaða ríkti um andstöðu gegn kjarnorkumálum á Kóreuskaganum.
Útflutningur Norður-Kóreu á kolum, járni, málmgrýti og sjávarfangi hefur verið bannaður með refsiaðgerðunum. Einnig hefur öðrum löndum verið bannað að stofna til nýrra viðskiptasamninga við yfirvöld í landinu.