Íslenski boltinn

Hefur eitthvað breyst á 39 dögum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framherjinn öflugi frá Mexíkó, Stephany Mayor, fagnar hér öðru marka sinna í síðasta leik Þórs/KA sem fór fram 2. júlí síðastliðinn.
Framherjinn öflugi frá Mexíkó, Stephany Mayor, fagnar hér öðru marka sinna í síðasta leik Þórs/KA sem fór fram 2. júlí síðastliðinn. vísir/eyþór
Toppliðið Þór/KA spilar í kvöld sinn fyrsta leik í Pepsi-deild kvenna eftir 39 daga frí vegna Evrópumótsins í Hollandi. Norðanstúlkur taka þá á móti Fylki á heimavelli sínum.

Það getur margt breyst í svo löngu fríi og margir bíða spenntir eftir því hvernig þjálfaranum, Halldóri Jóni Sigurðssyni, hefur tekist að halda sínum konum við efnið allan þennan tíma. Þór/KA-liðið fór meðal annars í æfingaferð til Hollands og fylgdist með íslenska kvennalandsliðinu á EM þar sem Sandra María Jessen var fulltrúi liðsins.

Þór/KA fór í fríið með sex stiga forystu á toppnum en Stjörnukonur minnkuðu það í fimm stig með jafntefli í Grindavík í síðustu viku.

Þór/KA vann 2-1 útisigur á Blikum í síðasta leik sínum sem fór fram 2. júlí síðastliðinn. Stephany Mayor skoraði bæði mörk liðsins í þessum risastóra sigri í Smáranum en hún var þá búin að skora í sjö af síðustu átta leikjum liðsins og enginn sóknarmaður var heitari í deildinni.

Þór/KA hefur enn ekki tapað í Pepsi-deildinni í sumar og er með tíu sigra í leikjunum ellefu. Liðin í næstu sætum á eftir hafa ekki lengur efni á að misstíga sig.

Liðin í næstu fjórum sætum mætast innbyrðis í kvöld og með hagstæðum úrslitum gæti Þór/KA stigið enn eitt skrefið í átt að Íslandsmeistaratitlinum.

Stjarnan (2. sæti) og ÍBV (3. sæti) mætast í Garðabænum og Breiðablik (4. sæti) heimsækir Val (5. sæti) í sjónvarpsleik umferðarinnar. Þór/KA gæti mest verið með sjö stiga forystu eftir leiki kvöldsins.

Þór/KA-liðið spilaði átta deildar- og bikarleiki á síðustu 39 dögunum fyrir EM-fríið og ekkert lið í deildinni leit þá betur út. Í kvöld fáum við fyrstu vísbendinguna um það hvort eitthvað hefur breyst á þessum sex vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×