Þór/KA henti ríkjandi bikarmeisturum Breiðabliks út úr Borgunarbikarnum með 1-3 sigri í Kópavoginum í gær. Akureyrarliðið hefur byrjað tímabilið frábærlega og unnið alla átta leiki sína í deild og bikar.
Þór/KA gat ekki síst þakkað fremsta og aftasta manni liðsins fyrir sigurinn í gær.
Mexíkóska landsliðskonan Sandra Stephany Mayor Gutierrez skoraði öll þrjú mörk Þórs/KA í leiknum. Hún er nú komin með átta mörk í jafn mörgum leikjum í sumar.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir var sömuleiðis frábær í markinu, sérstaklega í upphafi leiks þegar Blikar sóttu stíft.
Bryndís Lára kom til Þórs/KA frá ÍBV fyrir tímabilið og hefur heldur betur reynst Akureyrarliðinu vel. Bryndís Lára hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í átta leikjum í sumar og haldið fjórum sinnum hreinu.
Í spilaranum hér að ofan má sjá mörkin sem Sandra skoraði í leiknum í gær og nokkrar vörslur Bryndísar Láru.

